Innlent

Ekkert bendi til að brotið hafi verið á fleiri börnum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kristján Ingi segir ekkert benda til á þessu stigi rannsóknar að brotið hafi verið á fleiri börnum.
Kristján Ingi segir ekkert benda til á þessu stigi rannsóknar að brotið hafi verið á fleiri börnum. Vísir/Einar

Lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild segir ekkert benda til þess að leikskólastarfsmaður, sem er grunaður um að hafa brotið kynferðislega á barni á leikskólanum, hafi brotið á fleiri börnum. 

Fimm fundir með foreldrum barna, sem sækja Múlaborg nú og barna sem eru útskrifuð af leikskólanum, hafa farið fram á skrifstofum Reykjavíkurborgar í Borgartúni í dag. Til stóð að halda fundina á morgun en þeim var flýtt að beiðni foreldra. 

Fundirnir voru vel sóttir og segir Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild, að ekkert bendi til á þessu stigi rannsóknarinnar að brotið hafi verið á fleiri börnum. 

„Þessir fundir gengu ágætlega. Það komu upp ýmsar spurningar hjá foreldrum, bæði til okkar og borgarinnar og fagaðilanna sem voru hérna,“ segir Kristján. 

Ungur karlmaður var handtekinn á þriðjudag grunaður um kynferðisbrot, eftir að barn á leikskólanum leitaði til foreldra sinna sem tilkynntu málið til lögreglu. Á miðvikudag var hann úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.


Tengdar fréttir

Foreldrar verði að halda ró sinni þegar kynferðisbrot eru rædd við börn

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu segir mikilvægt að foreldrar ræði við börn sín af yfirvegun um kynferðisbrot og útskýri fyrir ungum börnum hvað megi og hvað ekki. Hún skilur vel að foreldrum sé brugðið yfir fregnum af því að starfsmaður leikskóla sé grunaður um kynferðisbrot gegn barni.

Barnið lét foreldra sína vita af brotinu

Barn, sem varð fyrir meintu kynferðisbroti af hendi starfsmanns á leikskólanum Múlaborg í Reykjavík, greindi foreldrum sínum sjálft frá atvikinu. Til rannsóknar er hvort brotið hafi verið á fleiri börnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×