Innlent

Braust inn á flugvallarsvæðið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Vísir/Vilhelm

Maður var handtekinn fyrir að fara inn á svæði Reykjavíkurflugvallar. Hann var vistaður í fangaklefa vegna málsins og tekin var skýrsla af honum þegar af honum var runnið. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar þetta er ritað gista tveir í fangageymslu lögreglu og alls eru 83 skráð í kerfinu á tímabilinu frá fimm í morgun til fimm síðdegis.

Úr miðborginni bárust einnig tilkynning frá gangandi vegfaranda um mikinn hávaða, öskur og læti sem komu úr íbúð. Þegar lögregla kom á staðinn heyrðu lögreglumenn einnig lætin. Íbúðin reyndist opin en enginn kom til dyra. Þegar kannað var með ástæðu hávaðans kom í ljós að húsráðandi var í tölvuleik og var að „lifa sig vel inn í leikinn“ að sögn lögreglu. Húsráðanda rauðbrá þegar hann varð var við lögreglu en lofaði að lækka í sér.

Þá barst lögreglu einnig tilkynning um hópslagsmál við Samhjálp í Borgartúni. Þegar lögregla kom á vettvang var hiti í mannskapnum en enginn var slasaður á vettvangi og engin vildi kæra eða segja lögreglu hvað hefði gengið á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×