Innlent

Segir engin átök í fulltrúaráðinu

Breki Logason skrifar
Marta Guðjónsdóttir
Marta Guðjónsdóttir

Marta Guðjónsdóttir var í dag endurkjörin formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, á aðalfundi félagsins. Marta sem er fyrsta konan sem gegnir stöðunni hefur gegnt formennsku undanfarin tvö ár. Hún segir engin átök hafa verið á fundinum en Bjarni Benediktsson formaður flokksins mætti á stjórnarfund félagsins í gær. Þar velti hann upp þeim möguleika að fresta aðalfundi fram yfir kosningar en stjórn félagsins ákvað hinsvegar að halda fundinn.

Aðalfundurinn í dag var gríðarlega fjölmennur, um 300 manns, að sögn Mörtu.

„Bjarni Benediktsson nýkjörinn formaður flokksins ávarpaði fundinn og var gerður góður rómur að ræðu hans. Ég held að þessi góða mæting helgist af því að fólk hafi viljað heyra í nýja formanninum," segir Marta.

Marta var ein í kjöri og hún segir engin átök hafa verið á fundinum. „Fólk bauð sig fram til stjórnar og sjö efstu voru kjörnir í hefðbundinni kosningu," segir Marta.

Í frétt á Vísi fyrr í kvöld var sagt frá því að Bjarni Benediktsson formaður hafi viljað fresta fundinum fram yfir kosningar. Marta segir það ekki alveg rétt en Bjarni hafi vissulega komið á stjórnarfund í gær og hitt þar stjórnina.

„Hann lagði ekki fram neina tillögu á þeim fundi, heldur velti upp þeirri spurningu hvort rétt væri að fresta aðalfundi fram yfir kosningar. Hann vildi heyra hver skoðun stjórnarmanna á því væri. Hann sagði það hinsvegar ekki vera í sínum höndum og sér væri sama hvora afstöðuna við tækjum," segir Marta.

Hún segir einstaka stjórnarmenn hafa velt fyrir sér hvort heppilegra væri að fresta fundinum, en niðurstaðan hafi verið að halda sínu striki og klára aðalfundinn.

Aðspurð hversvegna hún haldi að Bjarni hafi viljað fresta fundinum segir Marta að formaðurinn hafi líklega heyrt óskir um það frá fólki, það hafi hinsvegar verið örfáir og því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

„Það er ekkert óeðlilegt við það að formaðurinn mæti á stjórnarfund. Geir Haarde kom oft til okkar til þess að spjalla um hin ýmsu mál. Hann vann þétt við bakið á okkur og Bjarni mun gera það líka."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×