Íslenski boltinn

Mark Fram skráð sem sjálfsmark - Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Paul McShane skoraði fyrsta mark Fram gegn Fjölni í vikunni að flestra mati. Engu að síður skráði Magnús Þórisson dómari markið sem sjálfsmark Ásgeirs Arons Ásgeirssonar.

Myndband af markinu má sjá með því að smella á hlekkinn hér að ofan.

Sjálfur vissi Ásgeir Aron ekki að dómari leiksins hafi skráð markið sem sjálfsmark þegar Vísir hafði samband við hann í dag.

„Þetta kemur mér nokkuð á óvart, ég verð að viðurkenna það," sagði Ásgeir Aron. „Boltinn var á leiðinni inn og ég var að reyna að bjarga honum. Boltinn var kominn vel inn fyrir stöngina þegar ég reyndi að taka hann - ég sá þetta allavega þannig."

„Auðvitað finnst mér það ekki skemmtileg tilhugsun að markið sé skráð sem sjálfsmark á mig hjá KSÍ. Ég mun þó ekki gera neitt mál úr því, svo sem."

Ásgeir Aron fékk svo að líta rauða spjaldið seint í leiknum. „Ég get lítið kvartað undan því. Ég var á mikilli ferð og það voru búnar að vera nokkrar tæklingar á undan. Kannski mat dómarinn það þannig að leikurinn væri að fara úr böndunum og hann yrði því að gera eitthvað í málinu. Ég reyndi samt að fara í boltann en fór í manninn."

Þar sem Fjölnir tapaði leiknum er ljóst að liðið er fallið í fyrstu deildina. „Þetta er búin að vera nokkuð erfið vika en þetta er ekki eitthvað sem gerðist í þessum eina leik. Það er búinn að vera langur aðdragandi að þessu. En vissulega hundleiðinlegt."

Samningur Ásgeirs Arons við Fjölni rennur út í haust og óvíst hvað tekur við á honum. „Ég veit ekki hvað gerist en mér líður vel í Fjölni. Það er þó ekki búið að ræða við mig enn um framhaldið."

Smelltu hér til að sjá staðfesta leikskýrslu KSÍ úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×