Fótbolti

Írland fær ekki að verða 33. þjóðin á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frakkinn Thierry Henry og Írinn Richard Dunne eftir leikinn fræga.
Frakkinn Thierry Henry og Írinn Richard Dunne eftir leikinn fræga. Mynd/AFP
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur gefið það út að Írland fái ekki að vera 33. þjóðin á HM í Suður-Afríku næsta sumar eins og írska knattspyrnusambandið bað um sem lausn á deilunum vegna svindlmarks Frakka í umspilsleik þjóðanna á dögunum.

Jerome Valcke, aðalritari FIFA, sagði það ekki vera mögulegt að bæta við liði á HM því það myndi þýða allsherjar breytingu á uppsetningu keppninnar.

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að Írum verður ekki boðið að taka þátt í HM. Ég segja ekki að þessi beiðni hafi verið rugl en þetta er bara ekki mögulegt," sagði Valcke.

Írar eru á sama tíma mjög ósáttir með að Sepp Blatter hafi blaðrað því í fjölmiðla sem fram kom á fundi forseta FIFA með fulltrúum írska knattspyrnusambandsins.

Valcke segir að Blatter hafi gert Írum strax grein fyrir því að þetta væri ekki mögulegt því ef að Írar fengju að vera með þá kæmu aðrir í kjölfarið. Hann nefndi um leið Kosta Ríka menn sem sátu eftir á móti Úrúgvæ þökk sé rangstöðumarki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×