Innlent

Dansa þjóðdans undir berum himni

Rueda de Casino kallast kúbverski þjóðdansinn sem stiginn er á Miklatúni á hverju miðvikudagskvöldi.  Fréttablaðið/Stefán
Rueda de Casino kallast kúbverski þjóðdansinn sem stiginn er á Miklatúni á hverju miðvikudagskvöldi. Fréttablaðið/Stefán
„Það er rosalega skemmtilegt að dansa svona undir berum himni. Þannig fáum við ferskt loft og holla útivist um leið og við dönsum,“ segir Jóhanna Harpa Agnarsdóttir. Jóhanna er ein af þeim sem hefur í sumar og síðasta sumar stigið dans á Miklatúni á hverju miðvikudagskvöldi.

Dansinn sem stiginn er kallast Rueda de Casino og er kúbverskur þjóðdans. Þar dansa pörin í hring og herrarnir skipta reglulega um dömur. „Venjan er að dansað sé úti frá maí og fram í október, en á veturna dönsum við á kaffihúsum. Venjulega mæta milli fimm og tíu pör, en það er breytilegt. Allir eru velkomnir, en nauðsynlegt er að viðkomandi búi yfir lágmarks færni í salsa-dansi,“ segir Jóhanna.

Jóhanna æfir dans hjá Salsa Iceland eins og flestir þeirra sem dansa á Miklatúni. Hún segir mikla dansvakningu hafa átt sér stað að undanförnu. „Ég veit ekki hvort þetta tengist tíðarandanum. Þessu fylgir auðvitað mikið félagslíf, sem margir sækja í.“

Jóhanna gerir ráð fyrir að dansað verði á túninu út mánuðinn.- kg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×