Innlent

Svakaleg fjölgun innbrota

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geir Jón og aðrir lögreglumenn velta því fyrir sér hvort fjölgun innbrota tengjast kreppunni. Mynd/ Rósa.
Geir Jón og aðrir lögreglumenn velta því fyrir sér hvort fjölgun innbrota tengjast kreppunni. Mynd/ Rósa.
Fjölgun innbrota á höfuðborgarsvæðinu er svakaleg, að mati Geirs Jóns Þórissonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Um 300 innbrot hafa verið tilkynnt til lögreglunnar að meðaltali á mánuði frá byrjun árs. Það jafngildir um 10 innbrotum á dag.

Geir Jón segir að það hafi orðið mikil aukning innbrota síðan að bankakerfið hrundi í október í fyrra. Ekki sé hægt að fullyrða með vissu að kreppan sé ástæðan fyrir aukningunni en eðlilegt sé að menn spyrji sig þeirrar spurningar. „Við höfum spurt okkur að því," segir Geir Jón. Hann telur að aukningin í innbrotum hafi orðið allstaðar á landinu en hún sé líklegast mest á höfuðborgarsvæðinu.

Geir Jón segir að lögreglan hafi gert ýmislegt til þess að vekja athygli fólks á hættuni á innbrotum. „Við erum alltaf að biðja fólk um að skilja ekki verðmæti eftir í bílunum. Við erum alltaf að biðja fólk um að hafa þetta ekki of sýnilegt í húsunum hjá sér. Við erum alltaf að biðja fólk um að ganga eins vel frá húsum sínum og hægt er. En við vitum það að ef menn ætla að brjótast inn að þá fara þeir inn," segir Geir Jón.

Geir Jón segir mikið lausnarorð felast í nágrannavörslu og bendir á að tryggingafélögin og þjónustumiðstöðvar borgarinnar hafi hug á að koma með ríkari hætti að slíku fyrirkomulagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×