Enski boltinn

Ancelotti ætlar að breyta um leikaðferð á meðan Drogba er í burtu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas Anelka og Didier Drogba.
Nicolas Anelka og Didier Drogba. Mynd/AFP

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, hefur látið hafa það eftir sér að hann ætli að breyta um leikaðferð hjá Chelsea-liðinu á meðan Didier Drogba er í burtu að keppa með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni.

Didier Drogba hefur spilað í framlínunni með Nicolas Anelka en Anelka verður einn frammi þegar liðið verður án Drogba. Þess í stað munu annaðhvort Joe Cole eða Deco spila fyrir aftan Anelka sem sóknarmiðjumaður.

„Nýja leikkerfið mun ganga upp ef að allir eru tilbúnir að fórna einhverju. Þetta er langbesta í stöðunni þegar Afríkuleikmennirnir fara frá okkur í janúar. Liðið brást vel við þegar við breyttum hlutunum í upphafi tímabilsins og ég hef þá skoðun að það getur verið gott að breyta til að hrista aðeins upp í liðinu," sagði Carlo Ancelotti.

Menn voru þó fljótir að benda á það að Nicolas Anelka hefur jafnan gengið illa þegar hann spilar einn upp á toppnum og í Joe Cole eða Deco hefur hann ekki lengur stóran og sterkan leikmann til þess að vinna fyrir sig boltann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×