Enski boltinn

Roberto Mancini: Bellamy er vinur minn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Bellamy og Roberto Mancini.
Craig Bellamy og Roberto Mancini. Mynd/AFP

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, var spurður út í samband sitt og Craig Bellamy eftir að Bellamy var ekki í byrjunarliði City í 2-0 sigrinum á Stoke City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Craig Bellamy stóð sig frábærlega undir stjórn Mark Hughes og var einn af leikmönnum City-liðsins sem tóku því illa þegar Hughes var rekinn frá liðinu um síðustu helgi.

„Bellamy er vinur minn. Það er ekkert vandamál á milli okkar og við ræddum saman fyrir tveimur dögum. Liðið er að fara að spila tvo leiki á þremur dögum og ég þurfti að hafa alla leikmenn hundrað prósent," sagði Mancini og var þá að meina að hann ætlaði að dreifa álaginu á leikmenn sína.

Bellamy var vel fagnað þegar hann kom inn á fyrir Robinho eftir 70 mínútur. „Hann skildi það þegar ég sagði honum að hann myndi byrja á bekknum. Í dag spilaði Robinho en það eru líkur á því að Craig spili á móti Wolves á mánudaginn," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×