Innlent

Baugur vildi bíða betri tíðar

Jón Ásgeir Jóhannesson vildi bíða betri tíðar.
Jón Ásgeir Jóhannesson vildi bíða betri tíðar.

Baugur, sem var hafnað um áframhaldandi greiðslustöðvun í hádeginu, skuldar 148 milljarða umfram eignir samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá segir í dómsorði að þeir hafi viljað áframhaldandi greiðslustöðvun til þess að bíða betri tíðar. Þar kemur einnig fram að ekki hafi verið raunhæfur möguleiki hjá Baugi að koma nýrri skipan á fjármál sín.

Í niðurstöðu úrskurðarins segir að Baugur hafi talið nauðsynlegt að bíða um sinn og verja eignir sínar í von um að úr muni rætast á fjármálamörkuðum. Einnig væri nauðsynlegt að hefja nauðasamningsumleitanir.

Þá segir jafnframt að hvorugt þessara atriða séu til þess fallin að koma nýrri skipan á fjármál sóknaraðila; fyrra atriðið feli í raun í sér að „bíða eftir betri tíð", eins og það var orðað í úrskurði. Því var beiðni þeirra um áframhaldandi greiðslustöðvun hafnað.

Þetta þýðir að gjaldþrot blasir nú við Baugi Group. Glitnir og Íslandsbanki, sem eru í kröfuhafahópi Baugs lögðust gegn því að félaginu yrði veitt áframhaldandi greiðslustöðvun.

Stjórnendur Baugs ætla ekki að tjá sig um ákvörðun dómarans á þessu stigi málsins. Úrskurðinum er ekki unnt að áfrýja.


Tengdar fréttir

Baugi synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun

Baugi Group var í Héraðsdómi Reykjavíkur synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun félagsins. Félagið hefur verið í greiðslustöðvun í þrjár vikur en dómari féllst ekki á kröfu Baugs um áframhald greiðslustöðvunar. Þetta þýðir að gjaldþrot blasir nú við Baugi Group.

Sjö milljarða tjón ef Baugur fer í þrot

Nái beiðni skilanefndar Glitnis fram að ganga að greiðslustöðvun Baugs verði ekki framlengd mun það kosta þjóðina sjö milljarða. Stjórn Baugs og skilanefnd Landsbankans hafa að undanförnu unnið að því að tryggja að verðmætin glatist ekki.

Skiptir engu hver fer með forræði yfir Baugi

Skilanefnd Glitnis segir engu máli skipta hvort Baugur sé undir forræði núverandi eigenda eða skiptastjóra fyrir hönd kröfuhafa. Eins og greint var frá á Vísi í morgun halda forráðamenn Baugs því fram að verði ekki fallist á áframhaldandi greiðslustöðvun Baugs muni ríkið tapa sjö milljörðum í formi bréfa í Debenhams verslunarkeðjunni sem eru í vörslu breska bankans HSBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×