Viðskipti innlent

Sjö milljarða tjón ef Baugur fer í þrot

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Nái beiðni skilanefndar Glitnis fram að ganga að greiðslustöðvun Baugs verði ekki framlengd mun það kosta þjóðina sjö milljarða. Stjórn Baugs og skilanefnd Landsbankans hafa að undanförnu unnið að því að tryggja að verðmætin glatist ekki.

Baugur Group og Unity keyptu 13,5 % hlut í bresku verslunarkeðjunni Debenhams árið 2007. Á þeim tíma voru kaupin fjármögnuð af JP Morgan í Lundúnum. Í júlí á síðasta ári var fjármögnunin færð til Landsbankans. Vörsluaðili Debenhamsbréfanna hefur verið HSBC bankinn en sá banki fjármagnaði einnig Landsbankann að stórum hluta.

Við greiðslustöðvun Landsbankans í október síðastliðnum kom í ljós að skuld hans við HSBC var umtalsverð. Vegna neyðarlaganna voru innistæður sparifjáreiganda gerðar að forgangskröfum. Skilanefnd Landsbankans áætlar nú að um 72 milljarða vanta upp á til að standa skil á þeim. Aðrar kröfur, eins og krafa HSBC, falla því undir glataðar kröfur. HSBC hefur aftur á móti tromp á sinni hendi þar sem Debenhams bréfin liggja þar inni. Nú vill bankinn skuldajafna skuld Landsbankans með bréfunum. Heildarverðmæti bréfanna eru tæplega 7 milljarðar íslenskra króna.

Fari svo að greiðslustöðvun Baugs verði ekki samþykkt í dag munu bréfin ekki nást út frá HSBC og verðmætin sem í þeim felast tapast. Þar með mun tap Landsbankans, sem lendir á íslensku þjóðinni, verða 79 milljarðar í stað 72. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa skilanefnd Landsbankans og stjórn Baugs unnið að því að undanförnu að tryggja réttarstöðu Landsbankans gagnvart HSBC til að koma í veg fyrir að verðmætin glatist.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×