Viðskipti innlent

Skiptir engu hver fer með forræði yfir Baugi

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis.
Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis.

Skilanefnd Glitnis segir engu máli skipta hvort Baugur sé undir forræði núverandi eigenda eða skiptastjóra fyrir hönd kröfuhafa. Eins og greint var frá á Vísi í morgun halda forráðamenn Baugs því fram að verði ekki fallist á áframhaldandi greiðslustöðvun Baugs muni ríkið tapa sjö milljörðum í formi bréfa í Debenhams verslunarkeðjunni sem eru í vörslu breska bankans HSBC.

„Fari svo að greiðslustöðvun Baugs verði ekki samþykkt í dag munu bréfin ekki nást út frá HSBC og verðmætin sem í þeim felast tapast. Þar með mun tap Landsbankans, sem lendir á íslensku þjóðinni, verða 79 milljarðar í stað 72," sagði í fréttinni í morgun. Skilanenfd Glitnis segir það „hreina fjarstæðu að fullyrða að bréfin náist ekki út.

„Það er meginregla íslensks réttar, og raunar í gjaldþrota lögum vestrænna ríkja, að öll réttindi og skyldur gjaldþrota félags flytjast til þrotabúsins," segir í yfirlýsingu frá skilandefndinni. „Það getur því ekki skipt neinu máli um úrlausn þessa ágreinings við HSBC, hvort Baugur sé undir forræði núverandi eigenda eða skiptastjóra fyrir hönd kröfuhafa. Öll réttindi Baugs munu flytjast til þrotabúsins. Þess vegna er hrein fjarstæða að fullyrða að ,,bréfin muni ekki fást út", eins og það er orðað í fréttinni, ef bú Baugs verður tekið til gjaldþrotaskipta," segir ennfremur.

Skilanefndin bætir því við að ef bréfin eru í eigu Baugs þurfi einfaldlega að sýna fram á eignarhaldið og þá komi skuldajöfnuður eða fullnustuaðgerðir vegna skulda Landsbankans af hálfu HSBC ekki til greina. „Skiptastjóri er ekki í verri stöðu en núverandi eigendur Baugs til þess að halda uppi réttindum búsins að þessu leyti," segir ennfremur.

Einnig er bent á, að ef bréfin eru í eigu Landsbankans vegna framvirkra samninga við Baug, sé ekki útilokað að HSBC muni leita fullnustu í umræddum bréfum. Sú aðgerð væri hins vegar algerlega „óháð og ótengd" gjalþroti Baugs.




Tengdar fréttir

Sjö milljarða tjón ef Baugur fer í þrot

Nái beiðni skilanefndar Glitnis fram að ganga að greiðslustöðvun Baugs verði ekki framlengd mun það kosta þjóðina sjö milljarða. Stjórn Baugs og skilanefnd Landsbankans hafa að undanförnu unnið að því að tryggja að verðmætin glatist ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×