
Jóhanna tók djúpt í árinni um Suðvesturlínu

Jóhanna sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina að hún væri sannfærð um að hægt væri að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík í vor og að hindrunum yrði ýtt úr vegi vegna lagningar Suðvesturlínu í tengslum við álverið.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Þórunni út í málið sem sagði að þetta væri skoðun forsætisráðherra. Kæruferlið væri í gangi, umhverfismat liggi fyrir og væntanlega einnig fjármögnun. „Það eina sem liggur reyndar ekki alveg fyrir er hvernig eigi að afla orku til stóra álversins en væntanlega finna menn út úr því," sagði Þórunn.
Þórunn sagði að farið verði að landslögum í málinu. „Ég get alveg lýst þeirri persónulegri skoðun minni að orðalagið að riðja úr vegi, sem er orðalag stöðugleikasáttmálans, fannst mér svolítið djúpt í árinni tekið því væntanlega ætlum við öll að fylgja landslögum við þessa framkvæmd eins og allar aðrar."
Tengdar fréttir

Ummæli Jóhönnu mistúlkuð
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í umræðum á Alþingi í dag að ekki væri nein ástæða til að hafa áhyggjur af ummæli forsætisráðherra um stóriðjumálin á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina. Orð hennar hafi verið mistúlkuð.

Svandís hefur engar skýringar fengið frá Jóhönnu
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur ekki fengið skýringar frá forsætisráðherra á ummælum hennar um stóriðjumálin á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina. Umhverfisráðherra á erfitt með að tjá sig um málið þar sem hún gæti átt eftir að úrskurða í því.

Ekki rætt að ryðja hindrunum úr vegi
Aldrei hefur verið rætt um það innan ríkisstjórnarinnar að öllum hindrunum verði rutt úr vegi fyrir lagningu Suðvesturlínu. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

Umhverfisráðherra telur að Jóhanna þurfi að skýra orð sín
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þurfi að útskýra ummæli sín um Suðvesturlínu sem hún lét falla í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær. Ummæli Jóhönnu falla grýttan jarðveg hjá þingmönnum Vinstri grænna.

Bíður eftir útskýringunum
Ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur um að hún væri sannfærð um að öllum hindrunum yrði rutt úr vegi Suðvesturlínu eru óskiljanleg formanni Græna netsins, umhverfismálahóps Samfylkingarinnar.