Enski boltinn

Fjórtán ára strákur dæmdur fyrir viðbjóðslegan munnsöfnuð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sol Campbell.
Sol Campbell. Nordic Photos/Getty Images

Dómari í Portsmouth dæmdi í dag fullorðinn karlmann og fjórtán ára strák seka fyrir hneykslandi og viðbjóðslegan munnsöfnuð í garð Sol Campbell, leikmanns Portsmouth.

Báðir eru þeir stuðningsmenn Tottenham sem Campbell lék eitt sinn fyrir. Refsing verður ákveðin síðar. Strákurinn var 13 ára þegar atvikið átti sér stað.

Lögmaður hinna dæmdu sagði skjólstæðinga sína ekki hafa gengið lengra í munnsöfnuði en gengur og gerist á knattspyrnuvöllum á Englandi.

Því er Campbell ekki sammála.

„Mér fannst vera brotið gróflega á mér og fannst ég varnarlaus gagnvart svívirðingunum sem ég mátti þola þennan dag. Þetta atvik hefur haft áhirf á mig persónulega og ég get ekki þolað meira af slíku. Ég styð lögregluna í hennar aðgerðum," sagði í yfirlýsingu frá Campbell.

Dómarinn sem kvaddi upp dóminn sagði eftirfarandi.

„Dómnum finnst að orðin sem notuð voru séu einstaklega ósmekkleg. Þau voru ekki viðeigandi, þau voru hneykslanleg og viðbjóðsleg."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×