Innlent

Farsímar endurnýttir

Farsímafélagið Tal hefur ákveðið að bjóða GSM notendum að koma með gamla farsíma í verslanir félagsins til endurnýtingar. Símarnir verða sendir til viðurkenndra fyrirtækja erlendis þar sem þeir eru endurnýttir. Mörg tæki verða send til þróunarlanda þar sem þau verða seld fyrir brot af því verði sem þau kostuðu upphaflega, að fram kemur í tilkynningu. Þá verða hlutir úr öðrum biluðum tækjum nýtt í önnur raftæki. Að endingu er öllum spilliefnum eytt á löglegan hátt. Græn framtíð, sem sérhæfir sig í endurnýtingu á smáraftækjum, mun annast flutning á farsímunum til viðurkenndra endurvinnslufyrirtækja erlendis.

„Endurnýting á farsímum felst í því að gera við þá eða taka virka parta úr þeim til notkunar í önnur tæki. Þannig er hægt að viðhalda notkun á raftækjum með litlum kostnaði í stað þess að búa til glænýtt tæki," segir Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar.

Bjartmar segir að markmið félagsins sé að draga úr því magni rafeindabúnaðar sem endar á sorphaugum landsins. „Samstarfið við Tal er því mikilvægt skref í þeim áfanga því nú geta viðskiptavinir félagsins komið með gamla farsíma í verslanir þess og stuðlað að endurnýtingu," segir Bjartmar.

Atli Rafn Viðarsson hjá Tal segir að samstarfið við Græna framtíð sé hluti af því að efla umhverfisvitund bæði innan félagsins og meðal viðskiptavina þess. „Þá er mikilvægt að búnaðurinn fari til löggildra aðila í Evrópu sem vinna eftir reglugerð Evrópusambandsins um meðferð á notuðum raftækjum.

Við viljum því tryggja að þessi búnaður sé nýttur á löglegan hátt."

Farsímanotendur geta nú komið með notaða farsíma í verslanir Tals við Suðurlandsbraut og í Kringlunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×