Sam Allardyce, stjóri Blackburn, mun fara í hjartaaðgerð á föstudaginn næstkomandi en félagið vonast til að hann verði aftur orðinn vinnufær snemma í næstu viku.
Allardyce mun fara í aðgerð sem nefnist æðaviðgerð og sagði aðstoðarmaður hans hjá Blackburn, Neil McDonald, að ef allt fer vel ætti hann að geta snúið aftur til vinnu eftir fáeina daga.
„Við vonum að hann geti mætt aftur á mánudaginn og stýrt liðinu er það mætir Chelsea í deildabikarnum í næstu viku," sagði McDonald.
Allardyce er nýorðinn 55 ára gamall og hafði kvartað undan verk í brjóstkassanum.