Innlent

Skattamálin ekki komin á hreint

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ekki enn liggja fyrir hvort ríkisstjórnin leggi til að farið verði í fjölþrepa tekjuskattskerfi, til að afla ríkissjóði rúmlega fimmtíu milljarða sem þurfi til að vinna á halla á fjárlögum.

Þrepaleiðin sé ein þeirra leiða sem verið sé að skoða, en ljóst sé að tekjuskattur þurfi að hækka. Þá sagði forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun að nýtt 14 prósenta þrep yrði tekið upp í virðisaukaskatti og að tillögur varðandi hann og aðra neysluskatta yrðu væntanlega kynntar í ríkisstjórn á föstudag.

Jóhanna sagði einnig að ekki yrði hjá því komist að hækka skatta á atvinnulífið í landinu. Tekjuskattur fyrirtækja yrði hækkaður, en hann er nú 15 prósent. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki gefið auðlinda og umhverfisskatta upp á bátinn og ætlar nú að ná inn 7 milljörðum með þeim í stað áætlana um 16 milljarða áður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×