Innlent

Flokkarnir vita ekki hversu mikið þeir skulda

Sigríður Mogensen skrifar
Stjórnmálaflokkarnir hafa ekki hugmynd um hversu mikið þeir skulda. Skrifstofur flokkanna vita nokkurn veginn um eigin skuldir, en heildarskuldum flokka og flokksfélaga hefur í engu tilviki verið safnað saman.

Enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur yfirsýn yfir skuldastöðu sína í lok árs 2008. Bókhald flokkanna er dreift um allt land og ekki safnað saman nema eftir dúk og disk. Þetta kemur fram í svörum við fyrirspurn Stöðvar 2 til flokkanna um skuldastöðu.

Enginn stjórnmálaflokkanna gat gefið upp heildarskuldastöðu hvers flokks á landsvísu. Haft var samband við framkvæmdastjóra og gjaldkera flokkanna sem komu flestir af fjöllum þegar spurt var um heildarskuldastöðu um áramótin 2008 til 2009.

Magnús Nordal, gjaldkeri Samfylkingarinnar gat eingöngu frætt fréttamann um skuldastöðu skrifstofu Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, sagðist ekki vera með skuldastöðu flokksins á landsvísu en bætti við að byrjað væri að afla upplýsinga.

Sömu sögu var að segja af Drífu Snædal, framkvæmdastjóra VG. Hún vissi ekki um skuldastöðuna á landsvísu.

Ekki náðist í neinn hjá Frjálslynda flokknum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Gréta Ingþórsdóttir, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, vísaði á Petreu Jónsdóttur, sem sér um fjármál og rekstur flokksins. Hún gat ekki, frekar en Gréta, gefið upplýsingar um heildarskuldastöðu flokksins á landsvísu í lok árs 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×