Enski boltinn

Adebayor reis upp á sjöunda degi

Kraftaverkamaðurinn Adebayor
Kraftaverkamaðurinn Adebayor NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Emmanuel Adebayor hjá Arsenal upplifði kraftaverk þegar hann var barn.

Adebayor er fæddur í Tógó í Afríku en á líka ættir að rekja til Nígeríu. Hann var ekki enn farinn að ganga þegar hann var fjögurra ára gamall.

Móðir hans leitaði svara við þessu undarlega vandamáli víða, en var að lokum sagt að fara með drenginn í kirkju og biðja fyrir honum í eina viku. Ef hann gæti ekki gengið eftir það - myndi hann aldrei gera það.

Móðir hans lagðist á bæn á miðnætti á sunnudegi en ekkert gerðist fyrr en á sunnudagsmorgni viku síðar.

Þá var konan að verða búin að gefa upp alla von þegar fótbolti sem börn höfðu verið að leika sér með fyrir utan kirkjuna rúllaði inn á kirkjugólfið og í átt til Adebayor litla.

Drengurinn stóð þá upp og hljóp í átt að boltanum og þar með var kraftaverkið fullkomnað.

"Þeir sögðu mömmu að ég hlyti að vera með fótbolta í blóðinu," sagði Adebayor sjálfur.

"Þetta er ótrúleg saga - en hún er sönn. Mamma hefur sagt mér hana aftur og aftur frá því ég var barn," sagði framherjinn í samtali við Daily Telegraph.

Hann segist vera mjög trúaður maður. "Ég legg allt í hendurnar á Guði. Ég bið til hans þegar ég vakna og áður en ég fer að sofa. Það er ekkert mikilvægara í lífinu en Guð," sagði Tógómaðurinn.

"Fyrir átta árum var ég með smáaura í laun. Ég veit hvernig það er að hafa ekkert. Ég veit hvaðan ég er að koma og mun aldrei gleyma því," sagði Adebayor.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×