Fótbolti

Þjálfari Monaco: Félagið hefur gert allt fyrir Eið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guy Lacombe, stjóri Monaco.
Guy Lacombe, stjóri Monaco. Nordic Photos / AFP

Guy Lacombe, þjálfari Monaco, segir að félagið hafi gert allt sem í sínu valdi stendur til að leyfa Eiði Smára að aðlagast lífinu í frönsku úrvalsdeildinni.

Eiður Smári kom til Monaco frá Barcelona í upphafi leiktíðar en hefur ekki náð sér á strik. Lacombe valdi hann ekki í leikmannahóp Monaco fyrir leik liðsins gegn Stade Rennais í frönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Auðvitað bárum við miklar væntingar til hans en svona hefur þetta bara verið. Við munum leysa þetta vandamál hægt og rólega en hann þarf sérstaklega að vinna í sínum málum," er haft eftir Lacombe í frönskum fjölmiðlum.

„Félagið hefur gert allt sem í valdi þess stendur fyrir hann. En franska úrvalsdeildin er öðruvísi en hann bjóst við. Það hefur oft gerst að erlendir leikmenn hafa valdið vonbrigðum í Frakklandi," bætti hann við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×