Enski boltinn

Adebayor: Okkur hefur farið aftur

AFP

Emmanuel Adebayor, framherji Arsenal, segir að liðinu hafi farið aftur í vetur og að styrkja þurfi hópinn fyrir næstu leiktíð.

Adebayor sjálfur gerði ekki gott mót í leikjunum við Manchester United í meistaradeildinni og nú er ljóst að Arsenal nær sér ekki í alvöru bikar fjórðu leiktíðina í röð.

"Mér finnst við hafa tekið skref aftur á bak. Ekki bara ég heldur allt liðið. Við þurfum leikmenn. Alexander Hleb fór til Barcelona og við misstum Matthieu Flamini til Milan og þeirra var saknað. Við erum með mjög ungt lið og höfum reynt að gera það besta úr þessu," sagði Adebayor.

Hann hefur verið orðaður mikið við AC Milan undanfarið og hefur sjálfur ekki dregið úr þeim orðrómi í viðtölum.

"Áður en ég fór til Arsenal árið 2006 var fólk að segja mér að hér hefði ég möguleika á að vinna titla, en ég er enn tómhentur. Ég hef samt enga ástæðu til að fara héðan fyrr en ég vinn þessa titla sem ég kom hingað til að sækja," sagði Adebayor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×