Enski boltinn

Diouf sakar stuðningsmenn Everton um kynþáttahatur

Ómar Þorgeirsson skrifar
El Hadji Diouf.
El Hadji Diouf. Nordic photos/AFP

Framherjinn El-Hadji Diouf hjá Blackburn er enn sár og svekktur með frakomu stuðningsmanna Everton í sinn garð á meðan á leik Everton og Blackburn stóð á sunnudag.

Þessi fyrrum leikmaður Liverpool, erkifjenda Everton, kveðst oft hafa orðið fyrir áreiti stuðningsmanna en að stuðningsmenn Everton á Goodison Park-leikvanginum á sunnudag hafi farið langt yfir strikið.

„Þetta byrjaði allt á því að boltinn fór útaf og þá dúndraði boltastrákurinn boltanum í mig en ég hafði engin orðaskipti við hann. Stuðningsmennirnir vildu hins vegar meina annað og sögðu mig hafa blótað honum í sand og ösku út af kynþætti hans, en það er alls ekki rétt.

Í framhaldinu hentu stuðningsmennirnir banönum í mig. Ég talaði við fjórða dómarann út af atvikinu og hann kvaðst ætla að láta þetta fylgja með leikskýrslunni," segir Diouf.

„Ég er oft stimplaður af stuðningsmönnum hinna liðanna út af því að ég á það til að hrækja á menn og lenda í slagsmálum inni á vellinum en ég hef aldrei orðið uppvís af kynþáttahatri eða neinu slíku," útskýrði Diouf í viðtali við Radio Monte Carlo.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×