Upp­gjörið: Breiða­blik - Spartak Subotica 4-0 | Langt komnar í nýju Evrópukeppnina

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Breiðablik er í frábærum málum eftir fyrri slaginn um sæti í Evrópubikarnum.
Breiðablik er í frábærum málum eftir fyrri slaginn um sæti í Evrópubikarnum. vísir/ernir

Breiðablik sigraði Spartak Subotica frá Serbíu 4-0 í Evrópubikar kvenna í kvöld. Agla María Albertsdóttir skoraði tvennu og Sunna Rún Sigurðardóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir Blika. Breiðablik fer því með fjögurra mark forystu í seinni leikinn sem fer fram í Serbíu.

Breiðablik byrjaði leikinn af krafti og lá hreinlega á Serbunum fyrstu mínútur leiksins. Berglind Björg Þorvaldsdóttir braut ísinn með fyrsta marki leiksins á 8. mínútu eftir frábæra sókn.

Agla María Albertsdóttir tvöfaldaði forystu Blika tveimur mínútum síðar með frábæru marki eftir sendingu frá Samönthu Smith.

Serbarnir lyftu sér ofar á völlinn í kjölfar markanna og létu aðeins finna fyrir sér. Það skilaði sér þó ekki í neinu hættulegu færi. Vindurinn hafði töluverð áhrif á leikinn og áttu bæði lið oft á tíðum erfitt með að halda boltanum. 2-0 fyrir Breiðablik og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Síðari hálfleikur var tíðindalítill og virtust leikmenn ráða illa við vindinn. Nik Chamberlain, þjálfari Blika, gerði svo mikilvægar skiptingar um miðjan hálfleikinn sem færðu líf í leikinn.

Agla María bætti við þriðja marki liðsins eftir frábæran undirbúning Birtu Georgsdóttur. Sunna Rún Sigurðardóttir skoraði fjórða mark leiksins og fyrsta mark sitt fyrir Breiðablik. 4-0 niðurstaðan og Breiðablik í þokkalegri stöðu fyrir útileikinn í Serbíu eftir viku.

Atvik leiksins

Ekkert sérstakt atvik að mínu mati. Nik gerir mikilvægar skiptingar sem verða til þess að Blikar ná inn þriðja og fjórða markinu. Það styrkir stöðu liðsins heilmikið þegar þær spila leikinn úti.

Stjörnur og skúrkar

Andrea Rut Bjarnadóttir átti frábæran leik fyrir Blika í kvöld og var með fyrstu stoðsendingu leiksins.

Agla María Albertsdóttir var öflug með tvö mikilvæg mörk.

Birta Georgsdóttir sem hefur verið öflug með Blikum í sumar átti einnig frábæran leik og átti stóran þátt í þriðja marki leiksins.

Stemning og umgjörð

Frábær stemning á Kópavogsvelli en það var vindasamt og kalt. Ágætis mæting á völlinn en líklegt að veðrið hafi haft einhver áhrif.

Dómarar

Við vorum með Ungverskt dómarateymi í kvöld. Katalin Sipos var á flautunni, með henni voru Noemi Hegedus-Barath og Laura Emerencia Szabó.

Við fengum hættulega tæklingu strax á fyrstu mínútu leiksins sem dómarinn dæmdi ekkert á. Það hefði klárlega átt að vera gult spjald og var það augljóst öllum.

Á 34. mínútu vildu Blikar víti þegar Samantha Smith var straujuð inni í teig Serbanna og ekkert dæmt. Klárt víti að mínu mati.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira