Innlent

Icesave fer ekki óbreytt í gegnum þingið

Ingimar Karl Helgason skrifar

Það er engin sátt um það á alþingi að frumvarp um ríkisábyrgð vegna Icesave skuldbindinga við Hollendinga og Breta fari óbreytt í gegnum þingið. Sumir stjórnarliðar eru ekki sáttir við núverandi texta og leita samkomulags við stjórnarandstæðinga um fyrirvara, sem meirihluti Alþingis geti sætt sig við.

Ábyrgðin nemur hundruðum milljarða króna. Þess er vænst að eignir Landsbankans gangi upp í sem mest af skuldbindingum við Breta og Hollendinga. Alls ekki er víst hversu mikið fæst fyrir eignir bankans.

Stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar hafa undanfarið rætt um hvort ná megi þverpólitískri sátt um fyrirvara við Icesave samkomulagið og er skriður á málinu. Hátt settir menn í stjórn og stjórnarandstöðu halda um þræðina, en formlega er málið í höndum fulltrúa flokkanna sem sitja í fjárlaganefnd alþingis. Frumvarpið er þar til meðferðar og verður boðað til formlegs fundar í nefndinni, þegar menn hafa náð saman bak við tjöldin.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er meðal annars rætt um að setja þurfi fyrirvara um að Íslendingar geti látið reyna á lagalegan rétt og geti áskilið sér breytingar á samningum ef breytingar verða á reglum Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Þá þurfi fyrirvara um greiðslugetu Íslendinga og enn fremur fyrirvara um endurmat á því hvernig eignir Landsbankans eigi að skiptast milli Íslendinga annars vegar og Hollendinga og Breta hins vegar.

Fari svo að samkomulag náist um ítrustu fyrirvara, segja heimildarmenn fréttastofu að jafnvel þyrfti að reyna semja við Hollendinga og Breta upp á nýtt.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, segir að þingmenn verði að hafa fullvissu um að fyrirvarar við Icesave samkomulagið haldi gagnvart Bretum og Hollendingum. Öðruvísi náist aldrei meirihluti á Alþingi fyrir breytingum á samkomulaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×