Íslenski boltinn

Þorvaldur: Ætlum okkur fjórða sætið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Þorvaldur Örlygsson
Þorvaldur Örlygsson Mynd/Pjetur
Þorvaldur Örlygsson þjálfari Fram sagði ekki hafa verið erfitt að halda mönnum á jörðinni, eftir frækin sigur á KR, 1-0, í undanúrslitum VISA-bikarsins um helgina, fyrir leikinn gegn Fjölni í kvöld sem Fram vann, 3-1.

„Menn höfðu ekkert val. Það var stutt á milli leikja og menn verða að undirbúa sig. Menn vilja spila leiki og það er fínt að hafa stutt á milli leikja, þó kannski ekki alveg svona stutt," sagði Þorvaldur.

„Það er erfitt að leika eftir langa pásu eins og Fjölnir lendir í og við lentum í síðastliðinn laugardag. Það er erfitt að ná dampi og vellirnir eru þyngri á haustin og taka öðruvísi í. Við erum í góðu standi til takast á við það."

„Við lékum mjög vel í fyrri hálfleik. Það kom smá kafli í seinni hálfleik eins og við mátti búast þegar þeir koma ofar og reyna að ná marki til að gefa sér síðasta möguleikann. Það fjaraði út þegar þeir misstu dampinn og því miður fyrir þá þá féllu þeir. Það eru alltaf tvö lið sem þurfa að bíta í það súra epli."

„Það er nóg eftir af mótinu og ég þarf að halda mönnum við efnið. Við ætlum okkur fjórða sætið," sagði Þorvaldur að lokum en Fram er nú með þriggja stiga forystu á Breiðablik í fjórða sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×