Enski boltinn

Vagner Love vill ólmur til Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vagner Love í leik með CSKA Moskvu.
Vagner Love í leik með CSKA Moskvu. Nordic Photos / AFP

Brasilíumaðurinn Vagner Love segist ólmur vilja komast til félags í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur undanfarin fjögur ár leikið með CSKA Moskvu í Rússlandi.

Love vill fara til Englands og það helst núna strax í janúar. Enskir fjölmiðlar segja að Chelsea kunni að hafa áhuga á honum þar sem félagið missti af Robinho sem fór á endanum til Manchester City.

„Það er mitt markmið að komast til Englands," sagði hann. „Ég hef gefið CSKA mín bestu ár. En ég er ekki varaskeifa fyrir Robinho. Ég er minn eigin leikmaður."

Scolari hefur sagt að hann ætli sér hugsanlega að kaupa einn leikmann í janúar og segja fjölmiðlar í Englandi að hann sé á höttunum eftir framherja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×