Fótbolti

Tap í Frakklandi - Ísland í umspil

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Frakkar tryggðu sér í dag þátttökurétt á EM í Finnlandi á næsta ári með 2-1 sigri á Íslandi á heimavelli í dag.

Leikið var í Frakklandi en bæði lið voru jöfn að stigum fyrir leikinn. Íslandi dugði jafntefli til að tryggja sér efsta sætið í riðlinum og þar með beinan þátttökurétt á EM í Finnlandi.

Úrslitin þýða að Frakkland varð í efsta sæti riðilsins með 21 stig en Ísland í því öðru með átján. Ísland keppir þó í umspili, gegn einum andstæðingi heima og að heiman, um laust sæti á EM í Finnlandi.

Frakkar komust yfir snemma leiks en Katrín Jónsdóttir landsliðsfyriliði jafnaði metin strax í upphafi síðari hálfleiks. Aðeins tveimur mínútum síðar skoruðu Frakkar sigurmark leiksins.

Heimamenn byrjuðu af krafti í leiknum og fengu hornspyrnu strax á sjöttu mínútu leiksins. Þóra B. Helgadóttir, markvörður Íslands, kýldi boltann frá marki en Frakkar náðu honum aftur og gáfu háa sendingu inn á teig.

Aftur náðu íslensku varnarmennirnir að koma boltanum úr teignum en þá beint fyrir fætur fyrirliðans Sandrine Sobeyrand sem þrumaði knettinum efst í markhornið fjær. Óverjandi fyrir Þóru.

Frakkar voru áfram með yfirhödnina eftir markið þrátt fyrir einstaka skyndisókn íslenska liðsins, það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Þeir féllu þó nokkuð aftarlega á völlinn og ætla sér greinilega að verja forskotið í síðari hálfleik.

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og strax eftir tveggja mínútna leik jafnaði Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, metin. Ísland átti aukaspyrnu á vinstri kantinum og hár bolti barst inn á teig þar sem Katrín var mætt og stýrði knettinum í netið.

En gleðin var skammvinn. Á 49. mínútu fékk Frakkland horn og rétt eins og í fyrri hálfleik kom mark úr því. Boltinn var skallaður niður í teignum og náði Candie Herbert að pota boltanum í markið.

Ísland hélt áfram að berjast eftir þetta en náði því ekki að skora jöfnunarmarkið dýrmæta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×