Enski boltinn

Zola: West Ham sterkt félag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham.
Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Gianfranco Zola, knattspyrnustjóri Íslendingaliðsins West Ham, segir að félagið sé nægilega sterkt til að standa af sér Carlos Tevez-málið svokallaða.

Þetta sagði hann í samtali við enska fjölmiðla fyrir leik liðsins gegn Liverpool sem fer fram klukkan 20.00 í kvöld.

West Ham hélt sæti sínu í ensku úrvalsdeildinni vorið 2007, meðal annars á kostnað Sheffield United. West Ham var á sínum tíma sektað um háa fjárhæð þar sem að samningamál Carlos Tevez samræmdust ekki reglum ensku úrvalsdeildarinnar.

West Ham hélt þó sæti sínu í úrvalsdeildinni og það sætti Sheffield United sig ekki við og sótti málið fyrir gerðardómi. Úrskurður hans var að Tevez hefði ekki átt að spila síðustu leiki tímabilsins með West Ham.

Eftir því sem kemur fram á fréttavef Sky Sports mun United fara fram á skaðabætur upp á 50 milljónir punda þegar liðin fara á ný fyrir dóm í mars næstkomandi þar sem sektarviðurlög verða ákveðin.

„Eftir því sem ég best veit er félagið nægilega sterkt til að takast á við þetta mál. Hvorki ég né leikmenn hafa áhyggjur af þessu."

„Ég hef verið fullvissaður um að rekstur félagsins sé í lagi þannig að ég hef einbeitt mér að því sem mestu máli skiptir, að safna stigum."

„Auðvitað hef ég lesið mikið í fjölmiðum um öll þessi mál en ég treysti félaginu. Þeir segja mér að félagið sé í góðum málum og að það komist í gegnum þessar raunir. Það er mín skylda að liðinu gangi sem best á vellinum og mun ég einbeita mér að því."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×