Harry Redknapp, stjóri Tottenham, segir að það sé efst á dagskrá hjá sér að bjarga Tottenham frá falli úr ensku úrvalsdeildinni. Tottenham mætir Watford í fjórðungúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í kvöld.
Tottenham á titil að verja í deildabikarnum en liðið er nú í sextánda sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir skelfilega byrjun í haust. Það varð til þess að Juande Ramos var rekinn frá félaginu og Redknapp tók við.
„Þetta verður erfiður leikur gegn Watford en aðalmálið hjá okkur er að safna stigum í deildinni," sagði Redknapp. „Deildin skiptir mestu máli hjá okkur."
Leikur Watford og Tottenham hefst klukkan 19.45 í kvöld og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.
Hinn leikur kvöldsins í keppninni, viðureign Manchester United og Blackburn, hefst klukkan 20.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Í gær tryggðu Burnley og Derby sér sæti í undanúrslitum keppninnar. Burnley vann Arsenal og Derby lagði Stoke á útivelli.