Erlent

Norðmenn mega hefja hrefnuveiðar við Jan-Mayen

Í dag er heimilt að hefja hrefnuveiðar í Noregi og á Jan Mayensvæðinu. Leyft verður að veiða rúmlega 1.000 hrefnur á vertíðinni en litlar líkur eru taldar á að allur kvótinn náist í sumar.

Greint er frá þessu á vefsíðunni Interseafood.com. Þar er greint frá því að Bjørn-Hugo Bendiksen, formaður samtaka hrefnuveiðimanna, segi í samtali við NRK að hann telji öruggt að engir veiðimenn fari af stað svo snemma en fyrstu bátarnir gætu farið til veiða í fyrstu eða annarri viku aprílmánaðar.

Hann segir að vegna mikillar hækkunar á olíu og öðrum útgerðarkostnaði sé ljóst að fáar útgerðir sendi báta sína til veiða á Jan Mayensvæðinu.

Bendiksen segir að það sé jákvætt að lágmarksverð á hrefnukjöti hafi verið hækkað lítillega en verst sé að sú hækkun nái aðeins til fyrri hluta veiðitímabilsins.

Sama lága verðið muni gilda þegar veiðivonin sé mest þegar líður á sumarið. Samkvæmt því sé ljóst að útgerð hrefnuveiðibátanna verði í járnum enn eitt árið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×