Erlent

Sjónvarpslið smitaði ekki ættbálk í Perú af flensu

Julio Cusurichi til vinstri vinnur við að vernda ættbálka og regnskóga. Hér er hann ásamt tveimur ættbálkahöfðingjum ættbálka í Perú sem kjósa einangrun án sambands við samfélög nútímans.
Julio Cusurichi til vinstri vinnur við að vernda ættbálka og regnskóga. Hér er hann ásamt tveimur ættbálkahöfðingjum ættbálka í Perú sem kjósa einangrun án sambands við samfélög nútímans. MYND/AFP

Breskt sjónvarpsframleiðslufyrirtæki hefur neitað því að rannsóknarteymi á þess vegum í Perú hafi smitað einangraðan ættbálk af banvænni flensu.

Embættismenn ríkisstjórnar Perú, hópar sem berjast fyrir réttindum einangraðra ættbálka og bandarískir vísindamenn segja að fjórir meðlimir ættbálksins hafi látist eftir að sjónvarpsframleiðendur heimsóttu þá. Talsmaður fyrirtækisins, Cicada Films, sagði að fólkið hefði ekki heimsótt einangraða svæðið sem um ræðir.

Fréttavefur BBC greinir frá því að mennirnir á vegum Cicada hafi verið í Perú á síðasta ári við leit að tökustöðum fyrir nýja þáttaröð raunveruleikaþáttanna World's Lost Tribes sem sýndir eru á Disney stöðinni.

Framleiðslufyrirtækið segir að framleiðandanum og leiðsögumanninum hefði verið gefið opinbert leyfi til að fara á öll þau svæði sem þeir heimsóttu í Manu National þjóðgarðinum. Í yfirlýsingu Cicada segir að þeir hafi ferðast stutta vegalengd frá bænum Yomibato og aðeins eftir boð innfæddra. Engin sönnunargögn séu um að hópurinn hafi smitað svæðið af sjúkdómi og dagsetningar sem settar séu fram passi ekki.

„Framleiðandinn og leiðsögumaður hans heimsóttu ekki svæðið sem dauðsföllin eru sögð hafa átt sér stað og enginn sem þeir hittu hefur látist," segir í yfirlýsingunni.

En ríkisstjórnin heldur því fram að mennirnir á vegum Cicada hafi farið inn á svæði sem alfarið eru vernduð. Fenamad réttindasamtök ættbálkanna segja að þá hafa hundsað viðvaranir og ferðast upp eftir á til afar einangraðs þorps.

Bandarískur mannfræðingur sem hitti mennina í Peru segir að þeir hafi kvartað yfir að fyrsta svæðið sem þeir heimsóttu hafi verið of vestrænt og leitað eftir afskekktari stöðum.

Mannfræðingar telja að um 15 einangraðir hópar eða ættbálkar búi án sambands við umheiminn á svæðinu. Einangrunin þýðir að ónæmiskerfi þeirra hefur ekki lært að bregðast við sjúkdómum sem eru algengir í minna einangruðum samfélögum.

Ættbálkarnir kvarta gjarnan yfir því að timburfyrirtæki og olíuleitarmenn komi inn á land þeirra og dreifi sjúkdómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×