Erlent

Clinton biðst afsökunar á „mismælum“

Clinton hjónin
Clinton hjónin Mynd/ Reuters.

Hillary Clinton, sem berst um útnefningu demokrata fyrir forsetakjör í Bandaríkjunum, segir að hún hafi gert mistök þegar hún fullyrti að hún hafi orðið fyrir árás leyniskytta í Bosníu fyrir rúmum áratug.

Ráðgjafar Clinton höfðu þegar viðurkennt að hún hefði mismælt sig þegar hún sagði að þær Chelsea hefðu þurft að hlaupast undan árásarmönnum í heimsókn þeirra til Bosníu árið 1996. Á kosningafundi sem Clinton hélt í Pennsylvaniu í gær sagði hún að þessi mistök hennar sýndu fyrst og fremst að hún væri mannleg.

Ráðgjafar Baracks Obama, helsta keppinautar Clinton, segja að hún ofmeti reynslu sína af utanríkismálum. Þá hefur Clinton verið sökuð um að niðurlægja hermennina sem gættu hennar í Bosníu. Clinton gerir hins vegar lítið úr þeirri gagnrýni og segir stóru spurninguna vera þá, hver sé besti leiðtoginn, hún, Obama eða republikaninn John McCain.

Demokratar í Pennsylvaníu kjósa sér forsetaefni þann 22. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×