Erlent

Rússar endurvekja rannsókn á láti blaðamanns

Lögð á ráðin. Tilræðum er talið hafa verið beitt til að réttlæta árás Pútíns á tsjetjenska uppreisnarmenn.
Lögð á ráðin. Tilræðum er talið hafa verið beitt til að réttlæta árás Pútíns á tsjetjenska uppreisnarmenn.

MOSKVA (AP) Rússnesk yfirvöld segjast hafa endurvakið rannsókn á dauða þing- og blaðamannsins Yuri Shchekochikhin sem lést voveiflega árið 2003, að því er talið var vegna lyfja- og matarofnæmis. Samstarfsfólk Shchekochikhins grunar að í raun hafi verið eitrað fyrir honum. Alexander Bastrykin, formaður rannsóknarnefndar sem fer með spillingarmál, sagðist í viðtali við rússnesku fréttastofuna ITAR-Tass hafa vísað málinu á ný til rannsóknar lögreglunnar í Moskvu.

Auk þess að vera blaðamaður á rússneska dagblaðinu Novaya Gazeta sat Shchekochikhin á þingi fyrir hinn frjálslynda Yabloko-flokk og átti sæti í þingnefnd sem hafði til rannsóknar hvort öryggisþjónusta ríkisins hefði leynilega staðið á bak við fjölda sprenginga í íbúðarblokkum árið 1999 sem notaðar hefðu verið sem vatn á myllu Vladimirs Putins, þá forsætisráðherra, til að skera á ný upp herör gegn uppreisnarmönnum í Tsjetsníu. Náin samstarfskona Shchekochikhins á Novaya Gazeta, blaðakonan Anna Politkovskaya, var skotin til bana árið 2006 í kjölfar þess er hún ritaði greinaflokk um stríðið gegn tsjetjenskum uppreisnarmönnum. Meira en tylft fréttamanna hefur verið ráðin af dögum í Rússlandi síðan árið 2000, margir hverjir beindu sjónum sínum að spillingarmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×