Erlent

Opnað fyrir fréttavef BBC í Kína

Almenningur í Kína hefur nú frjálsan aðgang að fréttavef BBC á netinu. Nú er hægt að nálgast þar fréttir á ensku eftir áralanga og stranga ritskoðun af hálfu yfirvalda.

Vefsíður á borð við BBC eru gjarnan lokaðar í Kína samkvæmt stefnu stjórnvalda sem nefnist "Hinn mikli varnarmúr Kína".

Starfsmenn BBC í Kína segjast nú geta skoðað fréttir sem áður var lokað fyrir. Þrátt fyrir það er kínverski hluti fréttavefsins enn lokaður.

Yfirvöld í Peking hafa aldrei viðurkennt að loka fyrir aðgang að fréttum BBC og staðfesting um að lokuninni hafi verið aflétt hefur ekki verið gefin út.

Kínverjar sem hafa reynt að opna lokaðar síður hafa fengið villumeldinguna "Internetsambandið var endurstillt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×