Enski boltinn

Tommy Smith gagnrýnir Benítez

Elvar Geir Magnússon skrifar
Tommy Smith er greinilega búinn að fá nóg af Benítez.
Tommy Smith er greinilega búinn að fá nóg af Benítez.

Tommy Smith, fyrrum varnarmaður Liverpool, gagnrýnir Rafael Benítez harðlega eftir að liðið tapaði fyrir Barnsley í ensku bikarkeppninni. Barnsley skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og er Liverpool nú aðeins í baráttu um Meistaradeildartitilinn.

„Fyrir leikinn á laugardag þá sagði Benítez að bikarkeppnir væru alltaf hættulegar ef maður væri að vanmeta andstæðinginn. Af hverju í ósköpunum stillti hann þá ekki upp sterkasta mögulega liðinu?" sagði Smith.

Smith var fyrirliði Liverpool þegar liðið vann ensku deildina og UEFA keppnina 1971. Hann segir að stuðningsmenn Liverpool séu að missa þolinmæðina gagnvart spænska stjóranum.

„Bill Shankly sagði alltaf að maður væri aldrei betri en síðustu úrslit segðu. Heldur Benítez að hann nái að vinna titla ef hann lætur ekki sterkasta liðið spila? Leikmannahópur Liverpool er ekki eins sterkur og hann hélt í upphafi tímabil. Ég tel hann ekki einu sinni eiga nægilega sterkt byrjunarlið."

„Það er mér óskiljanlegt að hann hafi ekki látið Jose Reina, Steven Gerrard og Javier Mascherano spila," sagði Smith en hann telur að viðureignin við Inter sé upp á líf og dauða fyrir Benítez.

„Ég er hræddur um það. Hann heldur áfram að tala um þessa fjóra bikara sem hann hefur unnið en þeir telja bara ekki núna. Liðið nær ekki einu sinni að skemmta áhorfendum á Anfield og menn eru að fá nóg."

„Fyrsti leikmaðurinn sem maður stillir upp í byrjunarliðinu er Steven Gerrard. Svo er Benítez að tala um öll færin. Sannleikurinn er sá að þessi færi eru farin. Þú getur ekki skorað úr þeim eftir að leiknum lýkur," sagði Smith.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×