Enski boltinn

Di Canio dreymir um að þjálfa West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paolo Di Canio í leik með West Ham árið 2003.
Paolo Di Canio í leik með West Ham árið 2003. Nordic Photos / Getty Images

Paolo Di Canio segir í samtali við enska fjölmiðla að draumastarf hans sé að gerast knattspyrnustjóri West Ham einn daginn.

Di Canio lék með West Ham á árunum 1999-2003 og var afar vel liðinn af stuðningsmönnum liðsins. Hann verður fertugur í sumar og ætlar að ljúka ferlinum í vor með ítalska C-deildarliðinu Cisco Roma.

„Ég ætla að hætta að spila fótbolta í vor þar sem ég er orðinn of gamall til að geta haldið áfram að spila. Ég ætla því að hefja feril minn sem þjálfari á næsta ári og vonandi nýt ég sömu velgengni sem þjálfari og ég gerði sem leikmaður," sagði Di Canio.

„Draumur minn er að fá að þjálfa í ensku úrvalsdeildinni því enska knattspyrnan er sú besta í heimi. Helst myndi ég vilja þjálfa West Ham því stemningin á Upton Park er mjög sérstök."

„Ég horfi á enska boltann um hverja helgi og fylgist sérstaklega vel með stöðunni hjá West Ham. Félagið á sérstakan sess í mínu hjarta."

„Ég er ætíð stoltur af því að fylgjast með leikmönnum sem voru að taka sín fyrstu skref í boltanum sem ungir leikmenn hjá West Ham þegar ég var þar. Þá á ég við leikmenn eins og Joe Cole, Frank Lampard, Rio Ferdinand og Trevor Sinclair."

Di Canio er afar umdeildur knattspyrnumaður og nú síðast var hann gagnrýndur fyrir að senda stuðningsmönnum Lazio fasistakveðjur er hann lék með félaginu fyrir fáeinum árum.

Hann var einnig umdeildur á Englandi. Frægast er líklegast atvikið er hann hrinti dómaranum Paul Alcock í grasið eftir að hann gaf Di Canio rautt spjald í leik Sheffield Wednesday og Arsenal.

Árið 2001 hlaut hann svo háttvísisverðlaun FIFA fyrir atvik sem átti sér stað í leik West Ham og Everton í desember árið 2000. Þá ákvað hann að nýta ekki opið marktækifæri þar sem markvörður Everton, Paul Gerrard, hafði orðið fyrir meiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×