Enski boltinn

Manchester United kjöldró Newcastle

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldo skoraði þrennu í dag.
Ronaldo skoraði þrennu í dag. Nordic Photos / Getty Images

Manchester United gerði sér lítið fyrir og skoraði sex mörk gegn lánlausu liði Newcastle á heimavelli sínum í dag. Liðið er þar með komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar á nýjan leik.

Cristiano Ronaldo skoraði þrjú marka United, Carlos Tevez tvö og Rio Ferdinand eitt.

Alan Smith fékk svo að líta rauða spjaldið fyrir að mótmæla því að síðasta mark United var dæmt gilt.

Smith er fyrrum leikmaður United og var klappað lof í lófa er hann gekk af velli á lokamínútu leiksins.

Staðan var markalaus í hálfleik þrátt fyrir að United hafði verið með mikla yfirburði í fyrri hálfleik.

Newcastle átti reyndar að vera marki yfir þar sem Michael Owen skoraði mark fyrir Newcastle sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu.

Smith var svo dæmdur brotlegur snemma í síðari hálfleik er Cristiano Ronaldo féll rétt utan Newcastle og aukaspyrna var dæmd. Ronaldo skoraði sjálfur úr spyrnunni.

Tevez bætti svo við öðru marki eftir klaufagang í varnarleik Newcastle og Ronaldo bætti því þriðja við með laglegu skoti eftir sendingu Tevez.

Rio Ferdinand skoraði fjórða mark Uited með góðu skoti af stuttu færi eftir sendingu Wayne Rooney.

Ronaldo fullkomnaði svo þrennuna með marki sem Rooney lagði enn og aftur upp.

Tevez skoraði svo umdeilt mark þegar hann skaut í slána en þaðan fór boltinn á marklínuna. Erfitt var að sjá hvort að boltinn hafi allur farið inn fyrir marklínuna en markið var engu að síður dæmt gilt.

United hefur því jafnað Arsenal að stigum en þökk sé mörkunum sex er United með miklu betri markatölu og er því í toppsæti deildarinnar á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×