Enski boltinn

Allt um leiki dagsins: Arsenal og Liverpool töpuðu stigum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez virðist áhyggjufullur.
Rafael Benitez virðist áhyggjufullur. Nordic Photos / Getty Images

Liverpool gerði í dag 1-1 jafntefli við Middlesbrough á útivelli og er ljóst að Rafael Benitez má fara að óttast um starfið sitt.

Arsenal þurfti sömuleiðis að sætta sig við jafntefli á heimavelli gegn Birmingham og er liðið því með þriggja stiga forskot á Manchester United á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en United á leik til góða.

Chelsea vann góðan sigur á Tottenham, 2-0, þar sem Nicolas Anelka kom inn á sem varamaður og var nálægt því að skora í sínum fyrsta leik.

Derby tefldi fram mörgum nýjum leikmönnum í dag en varð samt sem áður að sætta sig við tap á heimavelli gegn Wigan.

Emmanuel Adebayor og Mathieu Flamini fagna marki þess fyrrnefnda.Nordic Photos / Getty Images

Arsenal - Birmingham 1-1

1-0 Emmanuel Adebayor, víti (21.)

1-1 Garry O'Connor (48.)


Philippe Senderos var í byrjunarliði Arsenal í stað Kolo Toure sem er fjarverandi vegna Afríkukeppninnar. Cesc Fabregas og Mathieu Flamini voru á miðju liðsins og frammi voru þeir Emmanuel Adebayor og Eduardo da Silva.

Theo Walcott hélt byrjunarsæti í liðinu en Tomas Rosicky var í byrjunarliðinu.

Hjá Birmingham voru þeir Sebastian Larsson og Fabrice Muamba, fyrrum leikmenn Arsenal, í byrjunarliðinu.

Það voru gestirnir sem fengu fyrsta hættulega færið er Cameron Jerome hljóp af sér tvo varnarmenn og átti gott skot að marki sem Manuel Almunia, verðandi Englendingur, varði glæsilega.

Eduardo hefði átt að skora fyrsta markið skömmu síðar er hann skallaði að marki eftir fyrirgjöf Alexander Hleb. Boltinn fór hins vegar beint á Maik Taylor í marki Birmingham.

En Arsenal-mönnum til mikillar lukku fengu þeir dæmda vítaspyrnu eftir að Stephen Kelly braut á Eduardo. Adebayor tók spyrnuna og skoraði fram hjá Taylor sem fór reyndar í rétt horn.

Jöfnunarmark Birmingham kom snemma í síðari hálfleik en Gary O'Connor var þar að verki með skalla eftir hornspyrnu Larsson.

Fleiri mörk komu ekki í leikinn en niðurstaðan hlýtur að teljast vonbrigði fyrir leikmenn og stuðningsmenn Arsenal.

John Carew og Ívar Ingimarsson berjast um boltann.Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa - Reading 3-1

1-0 John Carew (22.)

2-0 Martin Laursen (55.)

3-0 John Carew (88.)

3-1 James Harper (90.)


Þeir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson voru saman í vörn Reading í dag en alls gerði Steve Coppell átta breytingar á liðinu sem gerði 2-2 jafntefli við Tottenham í bikarkeppninni um síðustu helgi.

Aston Villa var hins vegar með óbreytt byrjunarlið frá 2-0 tapleiknum gegn Manchester United um helgina.

Heimamenn skoruðu fyrsta markið en John Carew var þar að verki með skalla eftir aukaspyrnu Ashley Young. Einfalt en mjög gott mark.

Snemma í síðari hálfleik kom Martin Laursen Aston Villa í 2-0 forystu, aftur úr föstu leikatriði. Hann skallaði í mark Reading eftir hornspyrnu Young.

Þriðja markið kom svo undir lok leiksins og var Carew aftur þar að verki. Í þetta sinn átti Gabriel Agbonlahor fyrirgjöfina á Carew.

James Harper náði svo að minnka muninn í blálokin fyrir Reading en það mark kom allt of seint.

Þar við sat. Ívar og Brynjar Björn léku allan leikinn í liði Reading.

Nicolas Anelka lék í fyrsta sinn með Chelsea og var í tvígang nálægt því að skora.Nordic Photos / Getty Images

Chelsea - Tottenham 2-0

1-0 Juliano Belletti (19.)

2-0 Shaun Wright-Phillips (81.)

Nicolas Anelka var á bekknum en hann samdi við Chelsea í gær. Claudio Pizzarro var hins vegar í byrjunarliðinu og Florent Malouda við hlið hans. Petr Cech var í marki liðsins á nýjan leik og Ashley Cole kom inn í liði á kostnað Wayne Bridge.

Á miðjunni voru þeir Michael Ballack og Claude Makelele.

Paul Robinson var aftur á bekknum hjá Tottenham sem hlýtur að ýta undir þær vangaveltur að hann sé á leið frá félaginu. Radek Cerny var í markinu á nýjan leik.

Í sókninni voru þeir Robbie Keane og Dimitar Berbatov og Jamie O'Hara hélt stöðu sinni á miðju Tottenham.

Leikurinn byrjaði fremur rólega en það var Juliano Belletti sem opnaði markareikninginn á Stamford Bridge með glæsilegu marki. Hann var einn á auðum sjó á miðjum vallarhelmingi Tottenham, lét einfaldlega vaða og Cerny náði ekki að verja skotið.

Kevin-Prince Boateng var svo heppinn að sleppa með gult spjald er hann braut illa á Joe Cole.

Á 58. mínútu kom svo Nicolas Anelka inn á í fyrsta sinn í búningi Chelsea og hann var ekki lengi að koma sér í gott færi.

Shaun Wright-Phillips átti glæsilega sendingu með hælspyrnu inn á Anelka sem sneri sér á punktinum og skaut að marki Tottenham. Cerny var hins vegar vel vakandi og varði glæsilega frá honum.

Phillips var svo sjálfur að verki þegar hann skoraði annað mark Chelsea með góðu skoti á vítateigslínunni eftir glæsilegan undirbúning Joe Cole.

Anelka fékk svo annað tækifæri til að skora í sínum fyrsta leik. Á 90. mínútu fékk hann boltann utarlega í teignum eftir klafs í vörn Tottenham en mark hans hafnaði í slánni og þaðan fór hann niður á marklínuna og út.

Niðurstaðan engu að síður góður 2-0 sigur Chelsea-manna.

Claude Davis fær hér að líta rauða spjaldið í leiknum í dag.Nordic Photos / Getty Images

Derby - Wigan 0-1

0-1 Antoine Sibierski (82.)

Rautt: Claude Davis, Derby (59.)

Robbie Savage var í byrjunarliði Derby í sínum fyrsta leik með nýju félagi. Það sama má segja um þá Emanuel Villa, Hossam Ghaly og Laurent Robert.

Hjá Wigan var Hondúrsmaðurinn Wilson Palacios í fyrsta sinn í byrjunarliðinu en hann komst í fréttirnar í haust þegar bróður hans var rænt í heimalandi sínu.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill en Marcus Bent komst næst því að skora er skot hans var varið á línu af Danny Mills, leikmanni Derby. Þá átti Antonio Valencia skot að marki af stuttu færi en missti algjörlega marks.

Snemma í seinni hálfleik fékk svo Claude Davis að líta rauða spjaldið þegar hann var áminntur öðru sinni, í þetta sinn fyrir brot á Marcus Bent.

Eitthvað varð undan að láta og náði Antoine Sibierski loksins að brjóta ísinn, sem betur fer fyrir gestina. Þetta var fyrsta snertingin hans í leiknum og tryggði hann þar með sínum mönnum fyrsta útisigurinn á leiktíðinni.

Joleon Lescott skorar sigurmark Everton í dag.Nordic Photos / Getty Images

Everton - Manchester City 1-0

1-0 Jolean Lescott (31.)

Mikel Arteta var kominn í byrjunarlið Everton eftir að hafa tekið út leikbann en Victor Anichebe var í byrjunarliðinu í stað Yakubu. James McFadden var einnig í byrjunarliðinu í stað Andy Johnson sem er meiddur.

Hjá Manchester City var Elano mættur á miðjuna á nýjan leik en Stephen Ireland mátti dúsa á bekknum.

Everton byrjaði leikinn mun betur og Tim Cahill fékk gott færi í fyrri hálfleik áður en Joleon Lescott skoraði með skoti af stuttu færi. Leikmenn City vildu fá rangstöðu en urðu ekki af ósk sinni.

Engin dauðafæri litu dagsins ljós eftir þetta og fögnuðu heimamenn því sætum sigri en gengi City á útivelli er langt frá því eins gott og á heimavelli.

Leikmenn Middlesbrough fagna marki sínu í fyrri hálfleik.Nordic Photos / Getty Images

Middlesbrough - Liverpool 1-1

1-0 George Boateng (26.)

1-1 Fernando Torres (71.)

Martin Skrtel var ekki í hópnum hjá Liverpool í dag enda langt síðan hann spilaði alvöru leik. Steven Gerrard var hins vegar í byrjunarliðinu og var á miðjunni ásamt Javier Mascherano en Xabi Alonso var á bekknum.

Fernando Torres og Andriy Vorinin voru í framlínunni en Peter Crouch var ekki í hópnum.

Hjá Middlesbrough var Stewart Downing á sínum stað í byrjunarliðinu en hinn ungi Jonathan Grounds var í byrjunarliðinu í stað Emanuel Pogatetz sem á við meiðsli að stríða.

Rafael Benitez hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu í ensku úrvalsdeildinni en ekki skánaði það þegar að George Boateng kom heimamönnum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn.

Boateng skoraði af stuttu færi eftir að Jeremie Alliadiere skallaði boltann fyrir markið.

Þannig stóð í fyrri hálfleik en frammistaða Liverpool í fyrri hálfleik þótti einhver sú versta hjá liðinu í lengri, lengri tíma.

Ryan Babel kom inn á fyrir Alvero Arbeloa í hálfleik hjá Liverpool.

Downing var svo óheppinn að skora ekki þegar hann skaut í stöng Liverpool-marksins.

Hann hefði átt að nýta færið því Fernando Torres tók til sinna mála skömmu síðar. Hann fékk boltann 40 metra frá markinu, tók nokkur skref áfram og lét svo þrumufleyg vaða að marki sem Mark Schwarzer náði ekki að verja.

Ekki urðu mörkin fleiri og einn eitt jafntefli staðreynd hjá Liverpool. Það er farið að hitna verulega undir Benitez, það verður að viðurkennast.

Carlos Bocanegra fékk ljótan skurð í vinstri kinnina sína.Nordic Photos / Getty Images

West Ham - Fulham 2-1

0-1 Simon Davies (8.)

1-1 Dean Ashton (28.)

2-1 Anton Ferdinand (69.)


Julien Faubert var í leikmannahópi West Ham í fyrsta skipti en hann sleit hásin skömmu eftir að hann kom til liðsins í sumar. Jonathan Spector var í byrjunarliði West Ham í stað Lucas Neill sem er meiddur. Freddie Ljungberg var einnig í byrjunarliðinu.

Hjá Fulham var Jimmy Bullard aftur mættur á bekkinn eftir sextán mánaða fjarveru vegna hnémeiðsla en þeir Steve Davis og Chris Baird voru báðir í byrjunarliðinu. Ekkert ber á Heiðari Helgusyni sem er enn að jafna sig eftir meiðsli.

Leikurinn var ekki orðinn gamall þegar fyrsta markið kom. Simon Davies tók aukaspyrnu af löngu færi sem Carlos Bocanegra reyndi að skalla. Hann missti af boltanum sem hafnaði svo í netinu hjá West Ham.

Skömmu síðar lenti þeim Freddie Ljungberg og Bocanegra saman með þeim afleiðingum að þeir voru alblóðugir. Ljungberg þurfti að skipta um keppnistreyju, aðdáendum hans til mikillar gleði.

Bocanegra þurfti hins vegar að fara af velli þar sem hann fékk ljótan skurð á kinnina. Aaron Hughes kom inn í hans stað.

West Ham náði svo að jafna metin með marki Dean Ashton um miðjan fyrri hálfleikinn. Ljungberg átti fyrirgjöf frá hægti og Ashton náði að rífa sig lausan og skalla í markið.

Antti Niemi varði svo mjög vel frá Ashton skömmu fyrir leikhlé og leikmenn Fulham máttu þakka fyrir að halda jöfnu í leikhlénu.

En snemma í síðari hálfleik skoraði West Ham sitt annað mark í leiknum. Mark Noble gerði vel þegar hann hélt boltanum inn á vellinum við endalínuna og hann gaf svo fyrir á Anton Ferdinand sem skallaði knöttinn í netið.

Baird átti svo góðan skalla að marki West Ham en boltinn fór rétt yfir markið.

Bullard fékk svo að spreyta sig í lok leiksins og var um mikinn persónulegan sigur fyrir hann að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×