Enski boltinn

Curbishley: Menn þurfa að koma sér á jörðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alan Curbishley, stjóri West Ham.
Alan Curbishley, stjóri West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Alan Curbishley, stjóri West Ham, er allt annað en ánægður með þá meðhöndlum sem knattspyrnustjórar í ensku úrvalsdeildinni hafa fengið á tímabilinu.

Sam Allardyce var í gær rekinn frá Newcastle og varð þar með félagið það áttunda af 20 liðum í ensku úrvalsdeildinni sem skiptir um knattspyrnustjóra á þessari leiktíð.

Curbishley segir að allt of miklar væntingar séu gerðar til knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni og að menn þurfi að koma sér niður á jörðina í þeim efnum.

Hann segir að knattspyrnustjórar þurfi einfaldlega meiri tíma til að vinna sitt starf.

„Fréttirnar af Sam komu mér á óvart," sagði hann í samtali við fréttavef Sky. „Newcastle er um miðja töfluna og það lítur ekki út fyrir að liðið lendi í fallbaráttu í vor. Ef liðið nær nokkrum góðum úrslitum kemst það í hóp átta efstu liðanna og ef það nær góðum spretti kemst það á topp sex."

Hann segir að það sé of mikið að átta knattspyrnustjórar hafi misst störfin sín það sem af er leiktíðar en mótið er rúmlega hálfnað.

Freddy Shepherd var stjórnarformaður Newcastle þegar Allardyce var ráðinn til félagsins fyrir átta mánuðum síðan. Síðan þá hefur félagið skipt um eigendur og telur Curbishley að það hafi getað haft sín áhrif.

„Það eru ekki bara leikmenn og knattspyrnustjórar sem sæta þrýstingi í sínum störfum heldur einnig forráðamenn félaganna þegar illa gengur. En þegar jafn miklar breytingar hafa verið gerðar á bæði leikmannahópnum og þjálfaraliði og raunin hefur verið hjá Newcastle undanfarið tekur það tíma að koma liðinu aftur á rétta braut."

Curbishley sagði hins vegar það alveg ljóst að hann væri ekki á leið til Newcastle. „Ég er hjá West Ham og þar vil ég vera áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×