Enski boltinn

Advocaat sér á eftir Skrtel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dick Advocaat, knattspyrnustjóri Zenit.
Dick Advocaat, knattspyrnustjóri Zenit. Nordic Photos / Getty Images

Dick Advocaat, þjálfari rússneska liðsins Zenit St. Pétursborg, sér mikið á eftir varnarmanninum Martin Skrtel sem er á leið til Liverpool.

Búist er við því að gengið verði frá kaupunum nú síðdegis og að Skrtel verði orðinn leikmaður Liverpool áður en liðið mætir Middlesbrough á laugardaginn.

Skrtel er 23 ára Slóvaki sem á að baki fimmtán landsleiki. Hann þykir með efnilegri varnarmönnum Evrópu.

„Þetta er mikill missir fyrir félagið þar sem Martin er ungur og efnilegur leikmaður sem á möguleika á að bæta sig mikið í framtíðinni," sagði hinn hollenski Advocaat.

„Það þýðir ekkert að reyna að halda honum í St. Pétursborg þegar honum stendur til boða að fara í eina sterkustu deild í heimi."

Skrtel hefur þó ekki spilað fótbolta síðan að Zenit mætti Everton á Goddison Park í UEFA-bikarkeppnini í byrjun desember þar sem rússnesku deildarkeppninni lauk í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×