Enski boltinn

Liverpool að ganga frá kaupunum á Skrtel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Skrtel í leik með landsliði Slóvakíu.
Martin Skrtel í leik með landsliði Slóvakíu. Nordic Photos / Getty Images

Liverpool er í þann mund að ganga frá kaupum á slóvaska varnarmanninum Martin Skrtel sem er leikmaður Zenit St. Pétursborg í Rússlandi.

Hann hefur þegar staðist læknisskoðun og samið um kaup og kjör við félagið. Talið er að kaupverðið nemi 6,5 milljónum punda sem þýðir að Skrtel verður dýrasti varnarmaður Liverpool frá upphafi.

Umboðsmaður Skrtel, Karol Csonto, sagði í samtali við fréttastofu Sky að viðræðurnar hefðu gengið vel.

„Það er allt í góðu. Við hittum Rick Parry (framkvæmdarstjóra Liverpool) seinna í dag til að ganga frá málinu. Hann er búinn að standast læknisskoðun og samningurinn er tilbúinn til undirritunar. Við bíðum bara eftir því að Liverpool tilkynni formlega um þetta."

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, hefur lengi viljað bæta varnarmanni í hópinn sinn en liðið hefur átt í vandræðum síðan að Daniel Agger meiddist í haust.

Agger er þó byrjaður að æfa á nýjan leik og sagði hann að hann væri allur að koma til og þyrfti bara að fá meiri leikreynslu.

Til stóð að hann myndi leika með varaliði Liverpool gegn varaliði Blackburn í kvöld en leiknum var aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×