Enski boltinn

Skrtel vill ganga frá félagaskiptunum sem fyrst

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Skrtel í leik með landsliði Slóvakíu.
Martin Skrtel í leik með landsliði Slóvakíu. Nordic Photos / Getty Images

Varnarmaðurinn Martin Skrtel vill ólmur ganga frá sínum málum sem allra fyrst og láta draum sinn rætast með því að ganga til liðs við Liverpool frá Zenit í St. Pétursborg.

Skrtel, sem er einnig leikmaður landsliðs Slóvakíu, er þegar búinn að semja um kaup og kjör við félagið og hefur einnig staðist læknisskoðun.

Talið er að Rafael Benitez hafi fyrir sitt leyti samþykkt kaupin sem eru talin vera upp á 6,5 milljónir punda. Skrtel er 23 ára og þykir vera með efnilegri varnarmönnum Evrópu. Hann er 1,95 metrar á hæð.

Ef af kaupunum verður mun hann verða dýrasti varnarmaður í sögu Liverpool.

„Síðustu tvær vikurnar hef ég verið í stöðugu sambandi við umboðsmanninn minn. Ég vona að allt fari vel á endanum og að draumur minn rætist. Ég get ekki beðið eftir því að skrifa undir samninginn," sagði Skrtel.

„Ég geri mér grein fyrir því að nú er nýr kafli að hefjast í mínu lífi. Ég átti erfitt með svefn aðfaranótt sunnudags og venjulega á ég aldrei í erfiðleikum með að sofa. En ég hef verið að velta því fyrir mér hvað bíður mín þarna og hvernig ég aðlagast aðstæðum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×