Enski boltinn

Pienaar spilar með Everton á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Pienaar í leik með Everton.
Steven Pienaar í leik með Everton. Nordic Photos / Getty Images

David Moyes stjóri Everton ætlar að nota Suður-Afríkumanninn Steven Pienaar í leiknum gegn Chelsea í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar á morgun.

Hann gerir þetta í óþökk suður-afríska knattspyrnusambandsins en búist var við að Pienaar færi til Afríku eftir leik Everton og Oldham um helgina.

Afríkukeppnin hefst þann 20. janúar næstkomandi en þar sem Suður-Afríka á ekki leik fyrr en 23. janúar telur Moyes að Everton megi nota Pienaar í leiknum á morgun.

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur þá reglu að samböndin megi biðja um að fá leikmenn með tveggja vikna fyrirvara.

„Við teljum að sú regla eigi við fyrsta leik Suður-Afríku í mótinu en ekki hvenær mótið sjálft hefst," sagði Moyes. „Við borgum laun leikmanna og teljum okkur vera í fullum rétti með því að halda honum hér og nota hann í leiknum gegn Chelsea."

Nígeríumennirnir Yakubu og Joseph Yobo munu einnig taka þátt í leiknum en knattspyrnusamband Nígeríu gaf þeim leyfi til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×