Enski boltinn

Íslenskir fjárfestar sagðir vilja kaupa Southampton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Samkvæmt frétt í The Daily Mirror á Englandi í dag mun hópur íslenskra fjárfesta leggja fram 6,1 milljarða króna tilboð í enska B-deildarliðið Southampton.

Southampton hefur átt í fjárhagslegum vandræðum undanfarið og hafa þó nokkur yfirtökutilboð ekki gengið í gegn að undanförnu. En í fréttinni segir að stjórn félagsins bindi miklar vonir við tilboð íslenska hópsins og er vonast til að viðskiptin gætu gengið í gegn á næstu tveimur vikum.

Íraninn Kia Joorabchian var um helgina orðaður við yfirtökutilboð en stjórnarformaður Southampton, Leon Crouch, sagði í dag að ekkert væri til í þeim fregnum.

Hann segist vera vongóður um framtíð félagsins. „Ég er handviss um að félagið muni finna sinn rétta fjárfesti á næstu þremur til sex mánuðum. Fyrst þurfum við þó að einbeita okkur að gengi liðsins á vellinum."

Joorabchian var nálægt því að kaupa West Ham árið 2006 en þá keyptu þeir Björgólfur Guðmundsson og Eggert Magnússon félagið. Joorabchian var einnig orðaður við yfirtöku á Fulham í fyrra.

Southampton er sem stendur í 15. sæti ensku B-deildarinnar með 33 stig eftir 26 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×