Enski boltinn

Berbatov vill fá að vera í friði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Berbatov hefur skorað þrettán mörk í öllum keppnum þetta tímabilið.
Berbatov hefur skorað þrettán mörk í öllum keppnum þetta tímabilið. Nordic Photos / Getty Images

Dimitar Berbatov segist vera orðinn þreyttur á öllum vangaveltum fjölmiðla um framtíð hans hjá Tottenham.

Hann hefur verið sterklega orðaður við Manchester United og Chelsea en Tottenham er talið vilja fá 30-35 milljónir punda fyrir Berbatov. Hann gekk til liðs við Tottenham árið 2006 fyrir 10,9 milljónir punda.

„Ég er orðinn hundleiður á því að lesa um mig í fjölmiðlum. Ég vildi óska þess að fjölmiðlar myndu láta mig í friði. Ég vil bara einbeita mér að mínum leik."

„Það er alveg ljóst að vangavelturnar hætta ekkert. En mér þykir verra að sjá eitthvað haft eftir mér sem ég sagði aldrei."

Hann segist vera ánægður hjá Tottenham. „Ég er ánægður eins og er. Framtíðin verður að fá að koma í ljós. En ég veit að ég get unnið titla með Tottenham. Við erum að vinna í því að laga okkar mistök og ég held að Juande Ramos sé rétti maðurinn til að breyta hlutunum til hins betra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×