Erlent

Félagar úr perúskum dauðasveitum dæmdir

Machu Picchu í Perú. Vinsæll ferðamannastaður nú en ferðamenn voru stranglega varaðir við heimsóknum árið 1992 vegna aðgerða Skínandi stígs.
Machu Picchu í Perú. Vinsæll ferðamannastaður nú en ferðamenn voru stranglega varaðir við heimsóknum árið 1992 vegna aðgerða Skínandi stígs. MYND/AP

Dómstóll í Perú dæmdi í gær hershöfðingja og þrjá félaga úr dauðasveitum stjórnarhers Alberto Fujimori í 15 til 35 ára fangelsi fyrir mannrán og morð árið 1992.

Voru mennirnir fundnir sekir um að hafa átt þátt í að ræna og myrða níu nemendur og prófessor við La Cantuta-háskólann sem grunaðir voru um samstarf við uppreisnarhreyfinguna Skínandi stíg. Öryggissveitir háðu blóðuga hildi við hreyfinguna á níunda áratugnum og fram í byrjun þess tíunda en mjög dró úr mótspyrnu Skínandi stígs eftir að nokkrir lykilmenn hreyfingarinnar voru handteknir árið 1992, þ. á m. Abimael Guzman.

Fujimori, sem var forseti Perú 1990 - 2000, er einnig fyrir rétti, ákærður fyrir að heimila dauðasveitum sínum að leggja til atlögu við uppreisnarmennina. Hann neitar alfarið sök og kveðst hvorki hafa vitað af tilvist dauðasveitanna né hafa heimilað stríð af neinu tagi við uppreisnarmenn. Mennirnir sem dæmdir voru í gær tilheyrðu sk. Colina-dauðasveit, leynilegri deild hersins sem sett var á fót til að fást við uppreisnarhreyfinguna.

AP greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×