Enski boltinn

Torres spilar líklega um helgina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard og Fernando Torres fagna marki með Liverpool.
Steven Gerrard og Fernando Torres fagna marki með Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, býst fastlega við því að Fernando Torres muni spila með Liverpool gegn West Brom í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Torres hefur ekkert getað spilað með Liverpool síðan hann meiddist í landsleik með Spáni í upphafi síðasta mánaðar. Hann missti til að mynda af báðum leikjum Liverpool gegn hans gamla félagi, Atletico Madrid, í Meistaradeildinni. Alls hefur hann misst af sex leikjum.

„Ég held að Torres verði orðinn klár í slaginn fyrir leikinn gegn West Brom um helgina," sagði Benitez. „Það er undir honum sjálfum komið. Hann treysti sér ekki til að spila gegn Atletico. Honum fannst hann ekki vera tilbúinn og það er ekki að hægt að tefla á tvær hættur með slík meiðsli," bætti Benitez við en Torres tognaði á lærvöðva.

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, er einnig vongóður. „Vonandi verður hann með um helgina. Við höfum saknað hans. Hann hefur verið að æfa alla vikuna og þetta lítur ágætlega út."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×