Innlent

Geir vill ekki kosningar heldur pólitískan stöðugleika

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

,,Það verða allir að standa í lappirnar. Annað væri uppgjöf," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, aðspurður í Kastljósi fyrr í kvöld um þá afstöðu tveggja ráðherra Samfylkingarinnar sem vilja að gengið verði til kosninga á næsta ári.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, telja bæði brýnt að stjórnvöld endurnýi umboð sitt og fram fari þingkosningar á næstu mánuðum.

,,Ég er dálítíð hissa," sagði Geir. Í dag hafi verið að ganga frá veigamiklum atriðum varðandi gjaldeyrislán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nú ríði að öflug ríkisstjórn haldi um stjórnartaumana. Geir sagði að ekki sé hægt að bjóða þjóðum sem ætla að aðstoða við uppbyggingu landsins upp á óvissu í stjórnmálum og við stjórn landsins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki talað við Geir um að kosningum verði flýtt, að sögn forsætisráðherra. Að óbreyttu verði því ekki kosið á næsta ári.

Sjálfstæðisflokkurinn er alltaf til í kosningar, að mati Geirs. ,,Ég er ekki hræddur við kosningar. Ég er lýðræðissinni."






Tengdar fréttir

Viðskiptaráðherra vill kosningar á næsta ári

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra er þeirrar skoðunar að boða eigi til kosninga á næsta ári. Undir þá skoðun tekur Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og segir atburði síðustu daga og vikna vera þeirra gerðar að þeir sem komi að uppbyggingarstarfinu verði að hafa til þess skýrt umboð.

Umhverfisráðherra vill kosningar á næsta ári

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra segist vera þeirrar skoðunnar að boða eigi til kosninga á næsta ári. Hún segir atburði síðustu daga og vikna vera þeirra gerðar að þeir sem komi að uppbyggingarstarfinu verði að hafa til þess skýrt umboð. Þórunn er fyrst ráðherra til þess að lýsa því yfir að hún vilji ganga til kosninga á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×