Enski boltinn

Allt um leiki dagsins: Liverpool heldur toppsætinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna einu marka sinna í dag.
Leikmenn Liverpool fagna einu marka sinna í dag. Nordic Photos / AFP

Liverpool og Chelsea unnu bæði sína leiki í ensku úrvalsdeildinni í dag og er því staða efstu liðanna tveggja óbreytt. Arsenal vann einnig sinn leik.

Arsenal kom sér upp í þriðja sæti deildarinnar með 1-0 sigri á Wigan en United er í fjórða sæti, stigi á eftir og á tvo leiki til góða.

Liverpool vann 3-1 sigur á Blackburn eftir afar tíðindalítinn fyrri hálfleik og þá vann Chelsea 2-0 sigur á Bolton.

Newcastle og Stoke gerðu 2-2 jafntefli eftir að Newcastle komst í 2-0 forystu með tveimur mörkum frá Michael Owen.

Þá vann Hull ótrúlegan 2-1 sigur á Middlesbrough en Boro komst yfir. Öll mörkin voru skoruð á nokkurra mínútna kafla undir lok leiksins.

Hull er í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig, Bolton í því tíunda með 20 stig. Wigan er í ellefta sæti með nítján stig, rétt eins og Boro og Stoke. Newcatle er í sextánda sæti með sextán stig en Blackburn enn í næstneðsta sætinu með þrettán stig.

Robin van Persie fór illa með nokkur færi í leiknum.Nordic Photos / Getty Images

Arsenal - Wigan 1-0

1-0 Emmanuel Adebayor (16.)

Kolo Toure var í byrjunarliði Arsenal í stað William Gallas sem á við meiðsli að stríða. Hjá Wigan var Mario Melchiot í byrjunarliðinu á nýjan leik eftir meiðsli og kom hann inn fyrir Michael Brown.

Leikurinn var ekki búinn að vera lengi í gangi þegar að Arsenal skoraði fyrsta markið. Cesc Fabregas gaf sendingu inn í teig en boltinn fór af þeim Alex Song og Titus Bramble áður en hann barst á Emmanuel Adebayor sem skoraði með laglegu skoti.

Undir lok fyrri hálfleiks átti svo Adebayor skot að marki Wigan sem Chris Kirkland náði að verja í stöng.

Í upphafi síðari hálfleiks komst Robin van Persie einn gegn Kirkland en van Persie skaut framhjá markinu. Skömmu síðar átti van Persie annað skot að marki en aftur missti skotið marks.

Um miðbik síðari hálfleiks átti Arsenal aftur skot í stöng, í þetta sinn eftir skot Denilson sem lét vaða utan teigs.

Wigan komst nálægt því að jafna metin er Mario Melchiot skaut að marki en Manuel Almunia var vel á verði. Wigan reyndi að sækja undir lokin en allt kom fyrir ekki.

Yossi Benayoun skoraði fyrir Liverpool í dag.Nordic Photos / Getty Images

Blackburn - Liverpool 1-3

0-1 Xabi Alonso (69.)

0-2 Yossi Benayoun (79.)

1-2 Roque Santa Cruz (85.)

1-3 Steven Gerrad (90.)

Robbie Keane var settur á bekkinn hjá Liverpool en þeir Emiliano Insua og Ryan Babel voru báðir í byrjunarliðinu. Kuyt var einn upp á toppi með Gerrard fyrir aftan sig en þeir Babel og Benayoun voru á köntunum.

Hjá Blackburn var ein breyting á byrjunarliðinu - Matt Derbyshire kom inn fyrir Benni McCarthy.

Leikurinn byrjaði fremur rólega en Yossi Benayoun fékk ágætt færi snemma í leiknum eftir stungusendingu Steven Gerrard. Stephen Warnock, varnarmaður Blackburn, tímasetti tæklingu sína hins vegar hárrétt og kom í veg fyrir mark.

Heimamenn fengu einnig sín færi en Pepe Reina náði að verja skot Morten Gamst Pedersen í slána.

Það var allt annað að sjá til Liverpool í síðari hálfleik og leikmenn voru búnir að skapa sér fáein færi áður en Xabi Alonso kom Liverpool yfir.

Steven Gerrard kom boltanum á Alonso sem náði að koma skotinu að marki og var Paul Robinson ekki nógu snöggur til. Boltinn því inni.

Stuttu síðar átti Yossi Benayoun góðan sprett. Hann lék auðveldlega á Warnock og náði svo að koma ágætu skoti að marki sem Robinson náði ekki að verja.

En Blackburn var ekki búið að játa sig sigrað og Roque Santa Cruz náði að minnka muninn með skallamarki eftir fyrirgjöf Keith Andrews sem Andre Oijer framlengdi á fjarstöngina.

Steven Gerrard innsiglaði svo sigurinn í uppbótartíma er hann skoraði í autt markið eftir að Robinson fór í skógarhlaup.

Grétar Rafn í baráttunni gegn Deco.Nordic Photos / Getty Images

Bolton - Chelsea 0-2

0-1 Nicolas Anelka (9.)

0-2 Deco (21.)

Grétar Rafn Steinsson var á sínum stað í byrjunarliði Bolton sem var óbreytt frá síðasta leik, er liðið vann 4-1 sigur á Sunderland. Ein breyting var gerð á byrjunarliði Chelsea en Alex kom inn fyrir Branislav Ivanivovic.

Kevin Davies komst nálægt því að skora strax í upphafi leiksins en hann skallaði yfir eftir hornspyrnu. Aðeins nokkrum mínútum síðar skoraði Chelsea.

Nicolas Anelka var þar að verki en hann skoraði með laglegum skalla eftir sendingu Jose Bosingwa. Þetta var hans þrettánda mark á tímabilinu.

Stuttu síðar var Chelsea komið tveimur mörkum yfir. Jussi Jaaskelainen varði vel frá Salomon Kalou en boltinn barst þá til Deco sem skoraði með stórglæsilegu skoti.

Yfirburðir Chelsea voru miklir en Bolton mátti þakka fyrir að vera ekki meira en tveimur mörkum undir í hálfleik. Síðari hálfleikur var heldur tíðindalítill og úrslitin því öruggur sigur Chelsea.

Nick Barmby og Didier Digard eigast hér við.Nordic Photos / Getty Images

Hull - Middlesbrough 2-1

0-1 Sanli Tuncay (79.)

1-1 Ross Turnbull, sjálfsmark (82.)

2-1 Marlon King, víti (85.)

Rautt spjald: David Wheater, Middlesbrough (84.)

Phil Brown, stjóri Hull, gerði engar breytingar á byrjunarliði Hull frá síðasta leik og hið sama má segja um Gareth Southgate, stjóra Middlesbrough.

Brasilíumaðurinn Geovanni fékk fyrsta færi leiksins um miðbik hálfleiksins. Það var reyndar algert dauðfæri en Geovanni skallaði langt fram hjá markinu þó svo að hann hafi verið einn á auðum sjó fyrir framan mark Boro eftir fyrirgjöf Marlon King.

Geovanni átti svo skot að marki úr aukaspyrnu stuttu síðar en boltinn fór af veggnum og yfir.

Ekki mikið fleira markverst gerðist þar til undir lok leiksins er Middlesbrough komst yfir með marki Tuncay sem skoraði með fínu skoti eftir fyrirgjöf Justin Hoyte.

En aðeins tveimur mínutum síðar var Hull búið að jafna metin. Markvörður Boro, Ross Turnbull, var reyndar fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir að skot fór af stönginni, í Turnbull og í markið. Það var Bernard Mendy sem skaut að markinu.

Þar með var dramatíkinni ekki lokið en skömmu síðar fékk David Wheater rauða spjaldið fyrir að brjóta á Geovanni í teignum og vítaspyrna dæmd. Marlon King skoraði úr spyrnunni og kom þar með Hull yfir, aðeins fáeinum mínútum eftir að Boro komst yfir. Þar við sat.

Richard Creswell og Habib Beye í baráttunni.Nordic Photos / Getty Images

Newcastle - Stoke 2-2

1-0 Michael Owen (8.)

2-0 Michael Owen (24.)

2-1 Mamady Sidibe (60.)

2-2 Abdoulaye Faye (90.)

Nicky Butt á við meiðsli að stríða og gat því ekki spilað með Newcastle í dag. Geremi kom í byrjunarliðið í hans stað.

Tony Pulis, stjóri Stoke, gerði fimm breytingar á liðinu sem tapaði fyrir Derby í deildabikarnum í vikunni.

Michael Owen var í byrjunarliði Newcastle og var ekki lengi að láta til sín taka. Hann kom Newcastle yfir með laglegu marki eftir góðan undirbúning Jonas Gutierrez.

Owen var svo aftur að verki stuttu síðar, í þetta sinn eftir fyrirgjöf Obafemi Martins.

En Stoke neitaði að játa sig sigrað. Mamady Sidibe minnkaði muninn í upphafi síðari hálfleiks eftir laglegan undirbúning og fyrirgjöf Ricardo Fuller.

Stoke fór að sækja stíft eftir þetta og leikmenn liðsins náðu svo að jafna metin í blálok leiksins. Abdoulaye Faye var þar að verki með föstu skoti.

Joe Kinnear, stjóri Newcastle, var allt annað en ánægður með gang mála og fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×