Fótbolti

Þekkjum Írana best

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik gegn Frökkum fyrr í mánuðinum.
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik gegn Frökkum fyrr í mánuðinum. Mynd/Stefán

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, var ánægður með að fá Írland í umspilinu um laust sæti í úrslitakeppni EM í Finnlandi á næsta ári.

Dregið var í morgun en Ísland gat mætt Írum, Skotum eða Tékkum. „Af þessum þjóðum þekkjum við Írana best og við eigum fína möguleika gegn þeim."

Ísland hefur tvívegis mætt Írum, á Algarve Cup bæði í ár og í fyrra. „Báðir leikirnir voru frekar jafnir. Í fyrra fór 1-1 og nú ár unnum við 4-1 sigur eftir að það var jafnt í hálfleik, 1-1."

„Írar eru með hörkulið og hafa náð góðum úrslitum í síðustu fjórum leikjum. Þær töpuðu naumt fyrir Svíum og svo þrívegis fyrir Bandaríkjunum."

„Það var mjög fínt að losna við Tékkana enda besta þjóðin af þeim sem komu til greina. En ég vildi ekki frá Skotana frekar en Írana eða öfugt. Þetta eru frekar svipaðar þjóðir. Mér líður þó betur að fá það lið sem við þekkjum best þar sem ég veit lítið sem ekkert um lið Skota."

„En ég veit að þetta verða tveir hörkuleikir. Við förum út í fyrri leikinn til að vinna og svo verður það mikilvægt fyrir okkur að sem flestir komi á Laugardalsvöll til að styðja okkur í seinni leiknum. Í þeim leik munu úrslitin ráðast, hvort Íslands kemst til Finnlands eða ekki. Það væri frábært að fá fullan Laugardalsvöll."

Hann segir að liðið hafi æft saman frá upphafi mánðarins og á föstudaginn spilaði landsliðið æfingaleik við Val. Liðið muni áfram æfa saman fram að leikjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×